Þingvellir

Miðvikudaginn 22. janúar 2003, kl. 14:52:29 (2898)

2003-01-22 14:52:29# 128. lþ. 63.2 fundur 111. mál: #A Þingvellir# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 63. fundur, 128. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Heimsminjaskrá UNESCO er alveg sérstök. Á hana komast einungis svæði sem vegna menningarlegs mikilvægis, einstakrar náttúru og sögulegrar fortíðar þykja einstök í heiminum. Segja má að þetta séu svæði sem heimurinn telur til sinna sérstæðustu og merkustu sameiginlegu arfleifðar.

Það er mikill heiður fyrir þjóð að eignast svæði sem eru á heimsminjaskránni. Það ýtir undir sérstöðu viðkomandi lands. Þeir sem stýra ferðaþjónustu hér á landi geta þannig greint frá því að í vaxandi mæli spyrja ferðamenn sem hingað koma eftir því hvaða svæði hér á landi séu á heimsminjaskrá og verða jafnan undrandi á því að fá þau svör að engin svæði séu á henni. Ég nefni til samanburðar að samkvæmt upplýsingum mínum eiga t.d. Svíar tólf svæði á heimsminjaskrá.

Heimsminjaskráin og möguleikar sem henni tengdust voru kynntir Íslendingum á síðasta áratug. Í kjölfarið var reyndar talað um fleiri svæði. Ég minnist þess að Surtsey og Skaftafell voru nefnd. Ákveðinn listi yfir slíka staði varð til og sérfræðingar UNESCO sem fjölluðu um hann tóku jákvætt í að þeir staðir kæmust á heimsminjaskrá ef rétt væri að umsókn um það staðið. Þingvallanefnd hafði síðan frumkvæði að því að setja af stað umsóknarferli um að koma Þingvöllum inn á skrána.

Þingvellir eru einstakur staður í vitund þjóðarinnar vegna mikilvægis í sögu hennar. Þar var okkar þing háð frá upphafi og um margar aldir, og þar liggja enn mikilvægar upplýsingar fólgnar í jörðu þó að við höfum reyndar gert allt of litlar fornleifarannsóknir á þessum sögufrægasta stað til þessa. Þingvellir eru líka einstakur staður frá náttúrufarslegu sjónarmiði fyrir margra hluta sakir. Þeir standa á sprungu sem skilur að tvær heimsálfur og þar er stöðugt að verða til nýtt land við sig og gliðnun skorpunnar. Lífríkið er einstakt og nægir að nefna að hvergi annars staðar í heiminum hafa þróast fjórar gerðir af bleikju svo ekki sé minnst á ísaldarurriðann sem stundum hefur verið nefndur í þessum sölum og er sömuleiðis partur af algerri sérstöðu Þingvallavatns.

Í mínum huga er því alveg ljóst að Þingvellir ættu fyrir löngu að vera komnir á heimsminjaskrá UNESCO. Í því fælist í senn viðurkenning fyrir staðinn en ekki síður okkur sem þjóð. Ég spyr því hæstv. forsrh.:

Hvað líður aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að koma Þingvöllum á heimsminjaskrá UNESCO?