Álverksmiðja í Reyðarfirði

Þriðjudaginn 28. janúar 2003, kl. 22:48:27 (3140)

2003-01-28 22:48:27# 128. lþ. 66.10 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv., KF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 128. lþ.

[22:48]

Katrín Fjeldsted (andsvar):

Herra forseti. Síðasti ræðumaður talaði nánast eins og það væri siðferðileg skylda okkar að framleiða ál. Mér er ljóst að hann hlustaði ekki á ræðu mína fyrr í kvöld þar sem ég var einmitt að ræða um þetta efni. En það er svo að þessi áróður hefur náð í gegn. Nú er svo komið að flestir Íslendingar halda að aðeins á Íslandi verði reist álver sem noti vatnsaflsrafmagn en það er alls ekki svo.

Herra forseti. Það kom fram í máli mínu fyrr í kvöld að gríðarlegt óvirkjað vatnsafl finnst víða í heiminum, í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Þar væri hægt að byggja öll heimsins álver og nota til þess vatnsaflsvirkjanir. Í yfirliti Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um virkjað og óvirkjað vatnsafl í heiminum kemst Ísland ekki einu sinni á blað. Í Venesúela eru sumar ár virkjaðar í mörgum þrepum upp á mörg þúsundir megavatta og álverin eru þar í röðum, samanber tilvitnaða grein eftir Júlíus Sólnes prófessor. Það er því tómt mál um að tala að það sé nánast siðferðileg skylda okkar að fórna landi okkar fyrir byggingu álvera. Það er hrein firra.

Svo vil ég segja hv. þm. að það er til skilgreining á ósnortnum víðernum og ég ætla að segja frá því í seinna andsvari mínu.