Afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu

Mánudaginn 03. febrúar 2003, kl. 15:28:26 (3300)

2003-02-03 15:28:26# 128. lþ. 70.92 fundur 392#B afgreiðsla forsætisnefndar á beiðni um skýrslu# (aths. um störf þingsins), LB
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 128. lþ.

[15:28]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Þetta lyktar af skítabragði, sagði hv. þm. Gunnar Birgisson í ræðunni áðan. Af því að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kom hér upp og sagði að þingmenn Samfylkingarinnar þyrftu að koma í ræðustól hver á fætur öðrum af því að þeir treystu ekki hver öðrum til þess að setja málið þannig fram að allir skildu, held ég að mikilvægt sé að ég komi hér upp og reyni að útskýra fyrir hv. þingmönnum um hvað þetta snýst.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson fór þess á leit við forsn. að hún kallaði eftir skýrslu hjá Ríkisendurskoðun um þetta tiltekna mál. Spurningin er því um það hvort þingmenn hafi aðgang að sinni eigin stofnun, sem er Ríkisendurskoðun, til þess að kalla þessar upplýsingar fram.

Ég vil líka segja það við hv. þm. Gunnar Birgisson að hafi allar þessar upplýsingar legið fyrir um tré og runna og hvað eina sem hann nefndi áðan þá hefðum við hv. þm. ekki verið að óska eftir þessu. Við viljum hins vegar leggja grundvallaráherslu á það prinsippatriði að þingið hafi aðgang að þessum upplýsingum. Ég vil segja það líka hér að mér hefur ætíð þótt heldur lítil vörn í þeirri skýrslu sem meiri hlutinn hefur flaggað hér ár eftir ár --- skýrslu sem var lögð fyrir þingið 1997 --- og að í skjóli hennar sé hægt að fela nánast allar upplýsingar sem hægt sé að hengja undir viðskiptaleyndarmál. Ég verð að segja það alveg eins og er að ég skil vel að menn vilji hafa þetta sem leyndarmál. En viðskiptaleyndarmál er þetta ekki.