Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 16:48:03 (3383)

2003-02-04 16:48:03# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[16:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nú segja það að ég vonast til þess að það verði ekki hlutverk hæstv. núv. samgrh. að endurskoða þessar tillögur eftir tvö ár, það muni aðrir koma að því.

En almennt og aðeins um það sem hæstv. ráðherra sagði um að hann hefði ekki gefið neinar yfirlýsingar eða loforð um að ráðist yrði í Suðurstrandarveg og honum lokið innan ekki langs tíma, ég sagði 2--3 ára en líklega hefði verið nákvæmar að segja 3--4 ára eftir að hæstv. ráðherra og þáv. formaður samgn. komu saman og gáfu yfirlýsingar. Í Ríkisútvarpinu 11. maí árið 2000 segir hæstv. samgrh. m.a., með leyfi forseta:

,,Það er óhætt að segja að ný vegáætlun sé sigur fyrir þingmenn Suðvesturlands. Viðbótarframlögin í endurskoðaðri vegáætlun eru þessi: 400 millj. verður varið til að leggja Suðurstrandarveg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur`` o.s.frv.

Hér liggur fyrir að við höfðum á þessu ári loforð um þetta framlag. Þingmenn Suðurlands hafa í gegnum tíðina lagt fyrir og tekið frá fjármagn í þennan tiltekna veg. Þetta átti að vera það sem fleytti okkur yfir erfiðasta hjallann en hæstv. ráðherra sagði áðan í ræðu sinni að hann hafi talið eðlilegra að fara í tvöföldun Reykjanesbrautar og klára hana. En það er rétt að halda því til haga að þessi áætlun er til ársins 2014.

Aðeins í lokin um Vestmannaeyjar. Það er alveg ljóst að ekki verður við það unað að bíða í tvö ár til viðbótar eftir því að einhverjar ákvarðanir verði teknar um bættar samgöngur við Vestmannaeyjar.