Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 17:06:24 (3385)

2003-02-04 17:06:24# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[17:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hér er af nokkru að taka sem ég vildi koma inn á varðandi ræðu hv. þm. Ég get tekið undir það sem hann sagði að það mætti bæta fleiru inn í samgönguáætlunina, svo sem fjarskiptunum, en það er af mörgu að taka. Ég fagna yfirlýsingum hans hvað varðar Reykjavíkurflugvöll. Það er afar mikilvægt að hann sé inni í þessari áætlun.

Fyrst vil ég nefna það sem síðast kom fram hjá hv. þingmanni varðandi jarðgöngin á milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Í samgönguáætluninni gerum við ráð fyrir fjárveitingum til jarðgangaframkvæmda allt áætlunartímabilið og við stefnum að því núna að árið 2008 verði lokið við Héðinsfjarðargöngin. Þá þarf að vera búið að taka ákvarðanir um næstu áfanga og inni í áætluninni eru fjárhæðir til þess. Í mínum huga hefur það alveg legið fyrir að næsti áfangi í jarðgangagerðinni yrði Arnarfjarðar-/Dýrafjarðargöngin og það þurfi að undirbúa það í samræmi við jarðgangaáætlunina sem var á sínum tíma afgreidd frá þinginu. Jafnframt var gert ráð fyrir því að hugað yrði að og rannsakað með jarðgöng á Austurlandi. Í mínum huga eru Arnarfjarðar-/Dýrafjarðargöngin mikilvæg.

Það er rétt sem kemur fram að það eru ekki gerðar sérstakar tillögur um framkvæmdafjárveitingar til endurbóta á Óshlíð í samræmi við þær tillögur sem nýlega komu fram en það er meðal þess sem ég tel að samgn. þurfi að líta til.

Hvað varðar Gjögurflugvöll er samkvæmt áætluninni gert ráð fyrir því að hann njóti þeirrar þjónustu sem áætlunarflugvellir fá.