Samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006

Þriðjudaginn 04. febrúar 2003, kl. 20:06:26 (3410)

2003-02-04 20:06:26# 128. lþ. 71.8 fundur 563. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2006# þál., 469. mál: #A samgönguáætlun fyrir árin 2003--2014# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 128. lþ.

[20:06]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil leggja nokkur orð í belg vegna þeirra áætlana sem fyrir liggja, annars vegar skammtímaáætlana í samgöngumálum, þ.e. til næstu þriggja og hálfs árs eða fjögurra ára tæpra og hins vegar til næstu 12 ára.

Ég vil eins og aðrir hv. þm. taka undir það að það er mjög til bóta að áætlanagerð í samgöngumálum er nú heildstæð eða slík að þar undir eru vegamálin, flugmálin og hafnamálin. Það gefur öllu heillegri mynd af stöðu mála og framtíðaráformum en verkast hefur viljað í gegnum tíðina. Almennt um áætlanagerð af þessum toga er nauðsynlegt að undirstrika enn og aftur að grundvallargildi þeirra liggur vitaskuld í því að eftir þessum áætlunum verði farið. Það verður því miður að segja þá sögu eins og hún er að á því hefur stundum verið allur gangur. Með öðrum orðum hafa menn stundum fallið í þann fúla pytt að segja stundum meira eða vera með hálfvolgar meldingar um að eitt megi skoða og annað meta, sem menn hafa ekki getað skilað síðan þegar til kastanna hefur komið. Slíkar áætlanir eru vondar áætlanir. Gildi þessara vegáætlana og samgönguáætlana liggur fyrst og síðast í því að notendur geti treyst á að þær standi í stærstu dráttum.

Auðvitað koma upp þær aðstæður að menn þurfa annaðhvort að gefa í eða draga úr eftir efnahagsumhverfi og ýmiss konar kringumstæðum. En í öllum megindráttum eiga þessar áætlanir að standa. Vægi þeirra og gildi stendur og fellur með því. Þess vegna get ég ekki nógsamlega undirstrikað það að menn verða að gæta sín, sérstaklega þegar nær dregur kosningum, varðandi það að gefa meira til kynna en hægt er að standa við. Það má aldrei verða en hefur því miður gerst í tímans rás og kannski er enginn einn stjórnmálaflokkur sekari eða saklausari en annar í þeim efnum. Þetta er hinn rauði þráður sem menn verða að gæta sín mjög á.

Í þessu samhengi er líka nauðsynlegt að árétta að stundum hefur það viljað verða að menn setja niður á blað áform, aðgerðaáætlun til einhverra ára --- gjarnan freistast menn til að gera það í skemmri áætluninni, fjögurra ára áætluninni --- sem þeir hafa í raun vitað að gæti ekki staðist, að ekki væri hægt að klára verkið fyrir þá fjármuni sem frá eru teknir. Þetta þekki ég nú býsna vel úr mínu kjördæmi, raunar í heimabæ mínum Hafnarfirði, þegar menn hafa lagt upp með dýr og umfangsmikil áform um endurbætur á Reykjanesbraut innan Hafnarfjarðar. Það er dálítið eftirtektarvert að í þeim tilfellum voru það heimamenn, núverandi bæjaryfirvöld í Hafnarfirði, sem vöktu á því athygli að endar næðu ekki saman í áætlunum Vegagerðarinnar annars vegar og þeim fjármunum sem haldið var til haga í gildandi vegáætlun og vildu fara ódýrari leið og hagkvæmari til þess að unnt yrði að nýta þá fjármuni til hlítar sem þó væru til staðar.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra einmitt um þá áfanga sem sérstaklega eru tilteknir í þessari vegáætlun --- þá er ég að vísa til fjögurra ára áætlunar --- hvort hann treysti sér til að fullyrða það, til að mynda um þá áfanga sem merktir eru á höfuðborgarsvæði nr. 41, Reykjanesbraut, og þá einkanlega þegar sunnar dregur á höfuðborgarsvæðinu, að 1 milljarður og 50 millj. eins og hér er gert ráð fyrir að eigi að verja til kaflans frá Kaplakrika að Lækjargötu annars vegar og síðan Lækjargötu að Kaldárselsvegi hins vegar, dugi fyrir þeim framkvæmdum. Nú er ég búinn að leggja þarna við 650 millj. sem ónotaðar eru frá fyrri tíma.

Þetta er algjört grundvallaratriði í áætlunargerð af þessum toga. Auðvitað vita menn ekki upp á krónur og aura hvernig útboð verða og ýmsir óvissuþættir. En í öllum meginlínum verða menn að vita nokk hvernig þeir ætla að sjá fyrir endann á þeim áföngum sem í er ráðist og að tilteknir áfangar verði kláraðir. Það má líka segja nokkuð um þessa áætlun og fyrri áætlanir, þ.e. að menn hafa freistast til þess að nefna of mörg verkefni til sögunnar og það að of langur tími hafi farið í að ljúka þeim verkefnum af þeim sökum, í stað þess að nefna færri og ljúka þeim á skemmri tíma.

Herra forseti. Það vekur athygli að þrátt fyrir háværar yfirlýsingar stjórnarliða, flokksbræðra og -systra hæstv. samgrh., þeirra sjálfstæðismanna sem hafa farið kannski sérstaklega framar öðrum mikinn í því að berja sér á brjóst og þakka sér það að hið þarfa verk tvöföldun Reykjanesbrautar frá Hafnarfirði suður á Suðurnes er nú hafið, þá er veruleikinn sá sem ég gerði grein fyrir fyrir ári síðan eða þar um bil þegar við vorum að ræða hér sambærileg mál. Veruleikinn er sá að reiknað er með því að fjármunir renni til þessa verkefnis á 12 árum. Þess vegna hef ég ævinlega sagt og segi það aftur að það er ljótur leikur að telja fólki trú um að hægt verði að gera þetta á einu eða tveimur árum, á árunum 2004 og 2005 þegar áætlanir sem Alþingi og framkvæmdarvaldinu ber að fara eftir segja allt annað.

Ég vil spyrja hæstv. samgrh. þannig að það sé algerlega ,,on record`` hér, hvort ég skilji það ekki rétt að hann geri það að tillögu sinni að tvöföldun Reykjanesbrautar frá Straumsvík og suður úr verði lokið á öllu áætlunartímabilinu, þ.e. allt til ársins 2014, miðað við þær tölur sem er að finna í langtímavegáætlun. Þessir hlutir verða einfaldlega að vera skýrir.

Ég teldi brýnna að spýta í og teldi það skynsamlegra framkvæmdarinnar vegna til þess að hún kæmi að gagni fyrr. Einnig hygg ég að það væri ódýrara teknískt fyrir framkvæmdina sem slíka. Ég vildi gjarnan að hæstv. ráðherra færi hér orðum um þetta.

Og af því að ég er á þessu svæði vil ég líka spyrja eins og fleiri hafa gert en hafa því miður ekki fengið svör við: Hvernig víkur því við að hæstv. ráðherra snýr algerlega við blaði og í raun og sanni tekur af dagskrá fyrri áform um Suðurstrandarveg? Hvað hefur gerst á síðustu mánuðum og missirum sem gerir það að verkum að hann tekur pólitíska ákvörðun um að leggja hér til við Alþingi Íslendinga að þessu verki verði frestað þar til í fyrsta lagi 2006? Samkvæmt tölum í langtímaáætlun verður ekki nema helmingi verksins lokið árið 2014. Ég spyr hann: Hvaða forsendur liggja hér að baki?

Ég vil undirstrika það og rifja upp að ég átti hlut að þessu máli ásamt öðrum ágætum hv. þm. þeirra tíma í þáverandi kjördæmanefnd sem gerði róttækar breytingar á kjördæmaskipan í landinu, fækkaði kjördæmum og stækkaði þau og olli það allnokkrum deilum bæði hér inni og í þjóðfélaginu öllu. Þar var einmitt lögð á það mjög þung áhersla að tryggt yrði í áætlunargerð í samgöngumálum að það yrði greiðfært einkum og sér í lagi innan viðkomandi kjördæma. Og af því ég sé hér hv. þm. Kristján L. Möller þá komu Siglufjarðargöngin svonefndu fyrst á dagskrá, að mínu mati, fyrir alvöru af þessum sökum því um þetta voru menn auðvitað sammála, þ.e. að ekki gengi að gera róttækar breytingar á kjördæmaskipan öðruvísi en að það tryggðar yrðu greiðar samgöngur, a.m.k. innan viðkomandi kjördæmis. Og af því að Siglufjörður lenti í Norðausturkjördæmi þá gaf augaleið að menn yrðu að tryggja að Siglfirðingar kæmust þurrum fótum og flesta daga ársins í hinn enda sama kjördæmis þar sem þjónustueiningar ættu saman. Því spyr ég: Hvaða önnur lögmál giltu þá allt í einu um Suðurstrandarveg sem jú sannarlega tengir Suðurnesin og Suðurlandsundirlendið?

[20:15]

Með öðrum orðum, nú er málum svo komið að alla vetrarmánuðina verða Suðurnesjamenn að fara í Suðvesturkjördæmið um Hellisheiði, Bláfjallaveginn geta þeir svo sem farið á góðum dögum, og þannig austur um. Ég gagnrýni þetta mjög harðlega. Ég spyr hæstv. ráðherra, af því að fram hefur komið ítrekað í ræðum úr þessum ræðustól í dag og það frá stjórnarþingmönnum --- ég get nefnt þá tvo sem ég heyrði segja það hér, annars vegar hv. þm. Hjálmar Árnason úr Framsfl. og hins vegar hv. þm. Kjartan Ólafsson úr Sjálfstfl., flokksbróður hæstv. ráðherra, þar sem þeir sögðu að forsenda þeirra fyrir stuðningi við þessa samgönguáætlun væri sú að orð stæðu gagnvart Suðurstrandarvegi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Voru einhverjir fyrirvarar í þingflokkum stjórnarflokkanna gagnvart þessu atriði? Eða er stuðningur stjórnarflokkanna við þessar meginlínur, og þar á meðal Suðurstrandarveginn, fyrirvaralaus? Ég held að nauðsynlegt sé að við fáum svar við því.

Auðvitað mun samgn. og samgöngunefndarmenn fara yfir þessi mál, og væntanlega og vonandi munu þeir gera á þessu lagfæringar og bragarbætur eins og gengur. En það er ekki oft, og við skulum bara horfast í augu við það eins og það er, sem þingnefndir gera grundvallarbreytingar á samgönguáætlun sem lögð hefur verið mikil vinna í af hæstv. samgrh. og hann hefur lagt vinnu í að fá samþykkta í þingflokki sínum og þingflokkum stjórnarflokkanna. Það væri nánast eins og vantraust, herra forseti, á hæstv. samgrh. ef svo færi að formaður samgn., hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, og samnefndarmnenn hans tækju um það pólitíska ákvörðun að segja: Nei, þessi tillaga um að taka Suðurstrandarveg af dagskrá næstu fjögur árin og setja hana að hálfu leyti á dagskrá næstu átta árin sem í hönd fara, við skulum breyta henni, við skulum taka Suðurstrandarveg á dagskrá nú þegar. Það væri auðvitað ekkert minna en vantraust á hæstv. samgrh. Við skulum horfast í augu við það. Því verðum við að hafa það alveg á hreinu: Er um það pólitísk eining innan stjórnarflokkanna meðal allra þingmanna þeirra, undantekningarlaust, að Suðurstrandarveg skuli taka af dagskrá?

Ég gagnrýni það mjög harðlega. Ég tel það í fyrsta lagi svik á gefnum fyrirheitum og algjöra pólitíska U-beygju, og ég spyr: Hvers eiga Suðurnesjamenn og Sunnlendingar að gjalda í þessum efnum? Ég tel þetta mikla samgöngubót og mikilvæga og tel mig líka vera frá fyrri tíð, eins og aðrir hv. þm. sem þá voru í þessum sal, skuldbundinn fyrri gefnum fyrirheitum í þessa veru. Og gildir þá einu hvort menn eru stjórnarsinnar frá einum tíma til annars eða stjórnarandstæðingar. Orð skulu standa.

Ég ætla svo sem ekki að orðlengja þetta eða fara í vangaveltur um vægi þéttbýlis- og dreifbýlissamgöngubóta, það mætti auðvitað setja á langar ræður um það. Þær eru sumpart eðlisólíkar og mætti halda um það langa ræður. Ég ætla ekki að setjast í slíkt dómarasæti, samgöngubætur bæði í þéttbýli og dreifbýli eiga auðvitað rétt á sér. Við viljum landið í byggð og viljum þess vegna leggja meiri fjármuni kannski í dreifðari byggðir en koma þaðan. Við getum auðvitað ekki eyrnamerkt verkefni þannig að þau fari nákvæmlega á þann stað sem fjármagnið verður til, með öðrum orðum að vegna þess að fólk borgi meira í vegaskatt á höfuðborgarsvæðinu þurfi allir þeir peningar, upp á krónur og aura, að koma á þann akkúrat sama stað. Þannig getum við auðvitað ekki nálgast þetta viðfangsefni þótt við verðum auðvitað að hafa það ævinlega í huga, alltaf að einhverju marki.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um tvennt áður en ég fer úr ræðustól, annars vegar um hafnamálin og hafnasamlög sem hafa átt, sum hver, í verulegum vandræðum. Hafnasamlag Suðurnesja er nú komið í frumeindir sínar og hefur verið leyst upp. Það er ekki að ástæðulausu. Það er vegna þess að af hálfu heimamanna er það fullyrt að samgrh. --- raunar ekki sá sem situr hér heldur forveri hans hvers fyrirheit núverandi situr uppi með, fyrirheit um að styðja og styrkja sérstaklega hafnasamlög þar sem hagkvæmni sameiningar átti að fá að njóta sín --- hafi ekki séð fyrir þeim stuðningi frá opinberum aðilum sem lofað hafði verið. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það geti verið skýringin og hvort enn sé von á því að lagað verði erfitt ástand þarna suður frá í þessum efnum þar sem skuldir hafnanna fyrir og eftir samlag eru í kringum 1.200--1.300 millj. kr. ef ég man rétt.

Síðan í bláendann vil ég spyrja af því að það hefur borið hér á góma, á kannski ekki beinlínis heima hér en er þó nátengt, um GSM-dreifikerfið í símunum og öryggismál á heiðum í þeim efnum. Þeirri hugmynd hefur verið kastað upp hvort hugsanlegt sé að Vegagerðin komi að einhverju leyti inn í það að þétta það net sem ég hef áður vakið athygli á að er býsna óþétt og hefur lítið verið gert í að bæta á síðustu mánuðum, missirum og árum vildi ég segja, af hálfu Landssímans eða annarra aðila á símamarkaði. Ég vil spyrja: Er einhver vinna í gangi af hálfu hæstv. ráðherra í þeim efnum að skoða til hlítar hvort það sé lagalegt umhverfi til þess að Vegagerðin komi að málinu? Og hefur hann áhuga á að beita sér í þeim efnum á þeim mánuðum sem eftir lifa fram að kosningum?