Samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 14:59:11 (3578)

2003-02-06 14:59:11# 128. lþ. 74.8 fundur 18. mál: #A samkeppnisstaða atvinnufyrirtækja á landsbyggðinni# þál., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[14:59]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg upplýst það og sagt það sem mína skoðun að ég ... (EKG: Ég var ekki að spyrja um það, heldur stefnu flokksins.) Ja, virðulegi forseti. Þú ert í andsvari við hv. þm. sem hér stendur og hann getur nú kannski lítið annað gert á þessu augnabliki en upplýst um sína tilteknu skoðun.

Skoðun mín er sú að fara verði mjög varlega í það að hafa mismunandi virðisaukaskattstig eftir landshlutum, það sé mjög erfitt í útfærslu. Það er einfaldlega mín skoðun. Við erum hins vegar að leggja það til í umræðunni og erum að lýsa því yfir að við erum tilbúin að leggja því lið að leita allra leiða til að jafna megi lífskjör.

Ég spyr hv. þingmenn Sjálfstfl. sem hafa komið hér í umræðu hver á fætur öðrum --- og ég skil það óskaplega vel að þeim líður ekkert sérstaklega vel í umræðunni vegna þess að þeir hafa farið með landstjórnina um nokkuð langt skeið og þetta er afleiðingin af þeirri stjórn. Ég spyr líka: Hvaða hugmyndir hafa þeir haft? Hvaða hugmyndir hafa þeir lagt til? Hvernig hafa þeir nýtt það vald sem þeir hafa haft? (GÁS: Verkin sýna merkin.) Já, já, verkin sýna merkin o.s.frv. Þetta er kannski kjarni málsins.

[15:00]

Hv. þm. reyndi eiginlega að draga dár að því og sagði að það væri til mikils mælst að við legðum fram tæknilega nákvæma útfærslu á því hvaða hugmyndir við hefðum í þessum efnum. Mér finnst langur vegur frá því að við lítum svo stórt á okkur að við höfum ,,in details`` nákvæma útfærslu á þessu. Við erum einfaldlega að segja að við viðurkennum þessa staðreynd. Það er búið að draga það fram með skýrum hætti að lífskjör á landsbyggðinni hafa versnað. Það er það sem við erum að segja. Við erum líka að segja (Gripið fram í: Þau hafa batnað.) að við viljum skipa þverpólitískan starfshóp til að takast á við þetta verkefni. Aðeins þessi hugmynd og þessi tillaga og þær rannsóknir sem búa að baki hafa gert það að verkum (Forseti hringir.) að hingað hefur komið hver sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum og ýmist (Forseti hringir.) snúið út úr eða dregið dár til þess eins að draga fjöður yfir eigið getuleysi í þessum efnum.