Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:15:16 (3732)

2003-02-11 16:15:16# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:15]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Mér fannst hv. þm. segja í einu orðinu að bannað væri að veðsetja aflaheimildir en í hinu að það væri leyfilegt. Ég hélt að ég hefði verið að segja nákvæmlega það sama áðan.

Það er leyfilegt að veðsetja aflaheimildir með skipi en ekki einar og sér. Ég hef aldrei litið á það öðrum augum en að þetta væri nákvæmlega sami hluturinn. Menn eru hvort eð er ekki með neinar aflaheimildir nema á skipi. Það er ekki hægt að eiga aflaheimild án þess að eiga skip.

Það sem ég var að meina áðan í sambandi við að kvótakerfið hefði verið geirneglt með veðsetningunni þá lít ég svo á að með því hafi útgerðarmenn fengið heimildir til þess að taka lán og veðsetja skip og aflaheimild fyrir láninu. Lánin geta verið til ákveðins tíma og eru það náttúrlega, segjum bara 10, 20 ár, og á þeim tíma mundi ég segja að veðheimildin gilti.

Ég er ekki að segja og sagði það alls ekki að þetta gilti til eilífðarnóns. Auðvitað gildir ekkert til eilífðarnóns. Aftur á móti hlýtur veðsetning að gilda meðan veðið er á hafi það verið sett á eignina með lögformlegum hætti.

En svo var ég að segja áðan að kannski sé þetta misskilningur hjá mér. Kannski er veðsetningin ekki svona sterk eins og ég hef haldið og kannski er jafnvel hægt að afnema þetta kvótakerfi bara með einu pennastriki ef sjútvrh. ákveður það. Því var ég að velta fyrir mér hérna áðan.