Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 11. febrúar 2003, kl. 16:19:48 (3734)

2003-02-11 16:19:48# 128. lþ. 76.7 fundur 24. mál: #A stjórn fiskveiða# (úthlutun aflaheimilda o.fl.) frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 128. lþ.

[16:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Eflaust má deila heilmikið um þessa veðsetningu og hversu sterk hún er. En ég get ekki tengt þetta við mismunandi ástand fiskstofna. Veðsetningin á ekkert við það. (JÁ: En byggðakvótann?) Veðsetningin á einvörðungu við þann afla sem úthlutað er á skipi hverju sinni. Hún á sem sagt við aflahlutdeildina. Ef kvótinn minnkar úr 200 þúsund tonnum niður í 150 þá er það aflahlutdeildin af þessum 150 þúsund tonnum sem gildir en ekki af 200. Ég mundi því ekki segja að þetta væri fordæmi til þess að segja að veðsetningin héldi ekki.

En varðandi kvótakerfið og Evrópusambandið og þá þróun sem er að verða þar þá tek ég alveg undir það að þetta er atriði sem þarf að skoða sérstaklega. Það er náttúrlega orðið þannig í dag að útgerðin fer með þessar heimildir eins og henni finnst best og réttast, setur kvótann út á fullvinnsluskip eða sendir fiskinn út í gámum eða getur bráðum farið að vinna þetta með útlendingum þess vegna um borð í skipum. Ég get alveg séð það fyrir mér. Það væri erfitt að stjórna því.

Hvort þetta getur haft einhver áhrif á annað í sambandi við Evrópustefnuna veit ég ekki. Ég velti því samt fyrir mér hvað við erum í rauninni að tala um þegar þetta eru orðnir örfáir menn sem stjórna veiðum við landið. Þeir geta landað þar sem þeim sýnist og stjórnvöld geta lítið skipt sér af málinu. Þá skiptir kannski ekki öllu máli hvort við erum innan eða utan Evrópusambandsins ef við lítum á dæmið frá þeim sjónarhóli.