Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir

Miðvikudaginn 12. febrúar 2003, kl. 15:43:34 (3784)

2003-02-12 15:43:34# 128. lþ. 78.94 fundur 428#B ákvörðun ríkisstjórnarinnar um opinberar framkvæmdir# (umræður utan dagskrár), utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 78. fundur, 128. lþ.

[15:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Núverandi ríkisstjórn hefur haft mjög mörg mál á sinni dagskrá. Tvö af stærstu málum ríkisstjórnarinnar hafa annars vegar verið einkavæðing ríkisbankanna og hins vegar stóriðju- og virkjanaframkvæmdir. Nú, þegar þessi mál eru nánast í höfn, annars vegar lokið við sölu bankanna og hins vegar vonumst við til með nokkuð mikilli vissu að það verði úr þeim miklu framkvæmdum sem unnið hefur verið að árum saman á Austurlandi, er rétti tíminn til þess að taka þær ákvarðanir sem nú hafa verið teknar.

Allan tímann hefur verið lögð á það áhersla af hálfu ríkisstjórnarinnar að hluti af ágóða af sölu ríkisbankanna ætti að renna til samgöngumála, til atvinnuþróunar og til byggingar menningarhúsa á landsbyggðinni. Þetta hefur ríkisstjórnin alltaf sagt og sá málflutningur hefur verið skýr í mörg ár. Hér er því ekki um nein endurunnin kosningaloforð að ræða, heldur eru efndir hér á ferðinni í samræmi við stefnu sem hefur verið uppi í langan tíma.

Það er afskaplega miður í þessu samhengi að fara að ala á sundurlyndi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins af þessu tilefni, eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði hér, og tekur hún þar upp sama málflutning og nýskipaður talsmaður Samfylkingarinnar, fyrrverandi borgarstjórinn í Reykjavík. Þetta er landsmál sem skiptir alla íbúa landsins miklu máli og það verður ekki leyst með því að vera stöðugt að ala á sundurlyndi milli höfuðborgar og landsbyggðar. Það ætti Samfylkingin að hafa í huga og það er miður ef þetta á að verða uppistaðan í kosningabaráttu þess flokks.