Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:17:27 (3814)

2003-02-13 11:17:27# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:17]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál upp og tel að það sé á engan hátt óeðlilegt þrátt fyrir að uppi séu tillögur inni í þinginu um lækkun flugvallarskatta. Þetta mál á sér svo margar hliðar.

En fyrst vil ég segja, vegna þess sem hv. þm. sagði, að ég held að það sé fyrirsláttur hjá flugfélögum sem hafa hætt að fljúga hingað og sagt það vera vegna hárra gjalda. Eins og kom fram í svari hjá hæstv. utanrrh. í þinginu fyrir nokkru eru gjöldin á Keflavíkurflugvelli ekki á nokkurn hátt frábrugðin því sem er hvað varðar fjárhæðir, nema síður sé, miðað við aðra flugvelli. Ég held að sú samkeppnisstaða sé alls ekki lök hjá okkur. Hitt vil ég segja að auðvitað vil ég sem samgrh. og ráðherra ferðamála lækka gjöld sem leggjast á flugfélög ef það mætti verða til þess að auka umferðina hingað til landsins. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Mitt vandamál, ef vandamál skyldi kalla, er það að ég verð auðvitað að fara að lögum sem Alþingi hefur sett. Alþingi samþykkti árið 1987 að leggja á farþegagjöld til þess að standa undir flugmálaáætlun. Það er Alþingi sem tók þessa ákvörðun. Við höfum hins vegar staðið frammi fyrir því núna um nokkurn tíma að Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við þetta mál og það verður að segjast alveg eins og er að þær athugasemdir eru nokkuð sérstakar þegar við lítum til þess hvað er að gerast í þessum efnum í Evrópu að öðru leyti. Svíar, Finnar, Spánverjar og Grikkir nota farþegaskatttekjur til þess að reka flugvallakerfi sín og færa á milli flugvalla. Það er vitað mál að meðal annarra ríkja innan Evrópusambandsins eru mismunandi flugvallarskattar þannig að ESA gerir þarna ríkari kröfur til okkar en gerðar eru til annarra ríkja á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þetta er staðreynd málsins og segir okkur kannski í hvaða stöðu við Íslendingar erum á þessum sviðum.

Hins vegar er á það að líta að við þurfum auðvitað að reyna allar leiðir til þess að lækka gjöld, lækka þjónustugjöld á flugvöllunum og lækka skatta, og um það verður væntanlega rætt á næstunni. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að ræða lækkun farþegaskattanna, en ég vil tryggja tekjuhlið málsins. Við getum ekki bara sagt eins og hv. málshefjandi hér að ríkissjóður borgi að sjálfsögðu brúsann. Við verðum að tryggja rekstur og uppbyggingu flugvallakerfisins í landinu og ég vil benda á það alveg sérstaklega að varaflugvellirnir á Íslandi eru forsenda fyrir því að hægt sé að reka með góðu móti Keflavíkurflugvöll. Og við verðum að tryggja þeim, Egilsstaðaflugvelli, Akureyrarflugvelli og Reykjavíkurflugvelli, tekjur til þess að geta staðið undir því að vera varaflugvellir.

Við höfum í rauninni komið mjög til móts við flugfélög, t.d. flugfélagð LTU sem flaug á síðasta ári frá Þýskalandi til Egilsstaða og síðan til Keflavíkur. Við veittum þar markaðsstyrki sem eru í rauninni, ef á það er litið þannig, niðurgreiðsla á sköttum sem það flugfélag greiðir vegna lendingargjalda og farþegaskatta. Við komum í rauninni til móts við þessi flugfélög.

Ég vil líka vekja athygli á því að forsvarsmenn fyrirtækja í Keflavík sem stóðu fyrir flugi kanadísks flugfélags hingað til landsins sögðu, þegar þeir ákváðu að hefja flug, að hér væru allar aðstæður hvað varðar gjaldtöku á Keflavíkurflugvelli æskilegar og ákjósanlegar og þess vegna ætluðu Kanadamenn að fljúga til Íslands. Það er ekki hægt að fullyrða að flugfélög séu að hætta að fljúga hingað vegna þess að gjöldin á vellinum séu há. Engu að síður, og það er mín niðurstaða, verðum við í fyrsta lagi að tryggja tekjur til þess að halda úti rekstri flugvallanna í landinu en jafnframt eigum við að leita leiða, m.a. með því að lækka farþegaskattana, til að efla millilandaflug.