Flugvallarskattar

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 11:38:35 (3822)

2003-02-13 11:38:35# 128. lþ. 79.95 fundur 433#B flugvallarskattar# (umræður utan dagskrár), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[11:38]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Á síðustu árum hefur íslenskt efnahagsumhverfi gerbreyst. Fyrirtækjum hefur verið auðveldaður reksturinn með lækkun skatta, opnara bankakerfi og minni ríkisafskiptum. Ríkisstjórnin hefur mótað rammann þannig að svigrúm fólks og fyrirtækja til atvinnusköpunar hefur aldrei verið betra. Þetta nýja og frjóa umhverfi hefur m.a. leitt af sér mikla útrás íslenskra fyrirtækja og þekkingar sem skiptir þjóðarhaginn auðvitað miklu máli. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa samhliða því að fagna þessu breytta en nú stöðuga efnahagsumhverfi bent á að eitt af þeim atriðum sem mikilvægt er að hlúa að svo útrás þessara fyrirtækja haldi áfram, eru öruggar og traustar flugsamgöngur til og frá landinu.

Síðast í gær á viðskiptaþinginu nefndu forstjóri Flugleiða og Kaupþings þessa gleðilegu útrás íslenskra fyrirtækja. En um leið bentu þeir á hversu mikilvægt það er að treysta grundvöll öruggra og reglulegra samgangna við landið. Þetta sama hafa að sjálfsögðu aðilar innan ferðaþjónustunnar margoft bent á og sömuleiðis hv. þingheimur.

Við höfum líka sé það á allra síðustu dögum að oft leiða önnur atriði en þau sem við sköpum okkur sjálf hér heima til þess að flugfélög hætta við flug hingað til lands. Má benda á kanadíska flugfélagið sem hætti við flug hingað til lands í þessari viku. Engu að síður, herra forseti, hljótum við að spyrja hvaða þættir megi verða til þess að styrkja enn frekar flugsamgöngur við landið, hvaða þættir séu hamlandi og hvaða þættir styrki þessar traustu samgöngur. Má í því sambandi líta til þess sem gamalreyndir menn í flugþjónustunni hafa m.a. bent á og það er að sameina flugmálastjórn í Keflavík og hér. Það getur leitt til mikillar hagræðingar og kannski vegið upp á móti skattalækkun sem menn eru að krefjast hér. Síðan verður, herra forseti, ekki síður að skoða vel þá flugvallarskatta sem samþykktir voru fyrir löngu síðan í allt öðru efnahags- og atvinnuumhverfi en er nú í dag. Ég er sammála því sem fram hefur komið að best sé að drífa sig í þá skoðun.