Póst- og fjarskiptastofnun

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 14:53:51 (3845)

2003-02-13 14:53:51# 128. lþ. 79.3 fundur 600. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir við það frv. sem hér er til meðferðar en vil síðan vekja athygli á því, ekki síst vegna þess sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að staðreyndin er sú að það er komin á samkeppni í fjarskiptum á Íslandi sem er í samræmi við þá löggjöf sem við höfum sett og það er í samræmi við þær reglur sem við höfum undirgengist á hinu Evrópska efnahagssvæði. Þar með gildir það að við getum hvorki mismunað fyrirtækjum með framlögum né mismunað fyrirtækjum með því að leggja mismunandi kvaðir á fjarskiptafyrirtækin umfram það sem við gerum gagnvart markaðsráðandi fyrirtækjum. Þetta er afar mikilvægt að undirstrika hér.

Eins vil ég vegna þess sem kom fram hjá hv. þingmanni minna á að í kjölfar samkeppni á fjarskiptamarkaði og vegna geysilega örra tæknibreytinga hefur okkur tekist að ná miklum árangri á sviði fjarskiptanna. Staðan er sú í dag að notkun fjarskipta og tölvutækni, gagnaflutningar, farsímanotkun o.s.frv. er með því sem best gerist í veröldinni, hér hjá okkur á Íslandi, bæði þjónustan og uppbyggingin og það sem er mikilvægast, verðið á þessari þjónustu er mjög hagstætt fyrir okkur Íslendinga enda notum við mikið bæði tölvur og síma. Það skiptir því miklu máli að svo vel hefur tekist til með að koma á samkeppni og uppbyggingu á þessum sviðum þjóðinni til mikilla hagsbóta. Staða okkar er sterk, staða okkar á sviði fjarskiptanna sérstaklega er mjög sterk.