Innflutningur dýra

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 17:31:54 (3964)

2003-02-18 17:31:54# 128. lþ. 81.22 fundur 249. mál: #A innflutningur dýra# (rekstur sóttvarna- og einangrunarstöðva) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[17:31]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi með athygli á vangaveltur hv. þingmanns um það frv. sem hér er til umræðu um innflutning dýra og breytingar þar á. Þá vil ég undirstrika, eins og fram hefur komið fyrr í þessari umræðu, að ég er ekki meðal flm. þessa frv. en það kom fram áðan að við hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir fluttum efnislega samhljóða frv. fyrir tveimur árum og þá sem brtt. við frv. hæstv. landbrh.

Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson var meðal þeirra stjórnarliða annarra sem felldu það frv. og þær vangaveltur sem hann lýsti almennt um málið voru mikið ræddar hér fyrir tveimur árum, einmitt það hvar ábyrgðin lægi. Um það er ekki deilt að það hlýtur auðvitað að vera á hendi landbrh. sem á að gæta þess að uppfyllt séu þessi grundvallarskilyrði. Og ef svo ólíklega vildi til að enginn aðili væri tilbúinn til að gera það yrði það auðvitað að gerast með atbeina ráðuneytis og ráðherra. Þannig hefur það einmitt verið fram undir seinni tíma og ríkissjóður hefur þurft að hafa af því nokkurn kostnað að halda úti stöðinni í Hrísey enda þótt fyrir hafi legið um nokkurra ára skeið að aðilar annars staðar á landinu væru tilbúnir til þess að halda úti þessari þjónustu endurgjaldslaust, þ.e. fyrir ríkissjóð, tækju eingöngu af starfseminni þjónustugjöld.

Ég get hins vegar tekið undir ýmislegt sem hv. þm. segir um textagerð þessa nýja frv. sem er miklum mun lakari en í því frv. sem við fluttum fyrir tveimur árum þar sem ekki þótti ástæða til að rekja það nákvæmlega og ,,defínitíft`` hvernig ráðherrann ætti að standa að þessum hlutum heldur var því lýst með almennari hætti, aukinheldur sem menn sáu ekki ástæðu til að setja það á hendur hæstv. ráðherra að setja starfseminni gjaldskrá, það leiddi af eðli þjónustunnar. Sumt var svo sem rétt sem hv. þm. sagði.