Skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:17:49 (4028)

2003-02-19 15:17:49# 128. lþ. 83.7 fundur 555. mál: #A skelfiskveiðar og ástand lífríkis í Breiðafirði# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:17]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Ég þakka þessa fróðlegu umræðu. Ég var með fyrirspurn hér fyrir réttu ári síðan til hæstv. sjútvrh. um hafsbotninn við Ísland og hann svaraði því til að kortlagning sjávarbotns við Ísland sem Hafrannsóknastofnun hafði nýlega hafið með svonefndum fjölgeislamæli mundi gefa nákvæmari mynd af landslagi sjávarbotnsins.

Það mátti heyra á máli ráðherrans að nú þegar hefur verið gripið til ráðstafana hvað varðar stöðu mála í Breiðafirði og fagna ég því. En mig langar að vita hvað hann telur sjálfur vera líklegt að maðurinn hafi lagt þarna til, þ.e. hvort hækkandi hitastig í sjónum stafi af mengun frá landi eða mengun frá mannfólkinu.