Almannavarnir o.fl.

Mánudaginn 10. mars 2003, kl. 23:21:02 (4661)

2003-03-10 23:21:02# 128. lþ. 94.34 fundur 464. mál: #A almannavarnir o.fl.# (breyting ýmissa laga) frv. 44/2003, JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 128. lþ.

[23:21]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Herra forseti. Enn ætla ég að gera tilraun til að útskýra fyrir hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni það sem hann hefur hugsanlega misskilið í þessu frv. Varðandi sérhæfðu starfsmennina er alveg ljóst að þó að sérhæfðum starfsmönnum sem hafa starfað hjá Almannavörnum undanfarin ár fækki er ekki þar með sagt að ekki sé verið að leggja aukinn starfskraft og aukinn metnað í almannavarnastarf í landinu. Með því að þessir starfsmenn færast yfir til ríkislögreglustjóra koma þeir til með að starfa með þeim sérhæfðu starfsmönnum sem ríkislögreglustjóri hefur yfir að ráða og hafa bæði fengið kennslu og þjálfun sem tengist þessum störfum.

Það sem mig langaði líka að halda til haga er að í brtt. sem allshn. leggur til verður almannavarnaráði haldið. Eina breytingin sem verið er að gera á stjórnskipun Almannavarna er að leggja niður litla ríkisstofnun og færa undir embætti ríkislögreglustjóra til að efla almannavarnir. Ég hvái þegar ég heyri hv. þm. Lúðvík Bergvinsson tala um það að það muni ekki leiða til aukins öryggis landsmanna. Ég spyr: Telur hann þetta leiði til minna öryggis landsmanna? Telur hann að þessar breytingar sem verið er að gera skaði almannavarnastarf í landinu? Mér finnst rétt að það komi þá bara skýrt fram hjá þingmanninum ef hann telur svo vera.

Varðandi orð hans um hvort ríkislögreglustjóri hafi eftir breytinguna yfir læknum að ráða og stjórni aðkomu þeirra að svona málum ætla ég að árétta að eftir sem áður ráða lögreglustjórar og sýslumenn í hverju umdæmi öllum aðgerðum og hafa með boðvaldið að gera. Það er einungis í þeim tilvikum að almannavarnaástand skapast í fleiri en einu lögsagnarumdæmi eða að sýslumaður á ákveðnum stað verður ekki fær um að gegna starfi sínu að kemur til kasta ríkislögreglustjóra.