Starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 11:05:42 (4834)

2003-03-12 11:05:42# 128. lþ. 97.2 fundur 672. mál: #A starfslokasamningar hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 128. lþ.

[11:05]

Fyrirspyrjandi (Kristján Pálsson):

Herra forseti. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli er góður vinnuveitandi og hefur farið vel með starfsfólk sitt frá því að það hóf starfsemi og réð fólk til sín fyrir rúmri hálfri öld. Það sést vel á því hversu lengi starfsmenn starfa þar. Starfsaldur margra er þegar orðinn 50 ár og þeir sem ég hef hitt og hafa verið þarna um langan aldur fara þaðan mjög sáttir og ánægðir með það hvernig á málum þeirra hefur verið tekið.

Starfslokasamningar eru eitt af því sem lýtur að starfslokum fólks hjá vinnuveitanda og eftir því sem mér er sagt hefur það verið með ágætum hjá varnarliðinu og á síðustu árum hefur verið þróað upp ákveðið starfslokakerfi þar sem mönnum er gefinn kostur á því að hætta með einhvern sveigjanleika og einnig er einhver umbun sem því fylgir þannig að þessi þróun hefur verið mjög í anda góðrar starfsmannastefnu sem starfsmannahaldið og yfirmenn varnarliðsins hafa fylgt.

Heyrst hefur af því að einhverjar breytingar séu á starfslokasamningum sem þróast hafa á síðustu árum og mun það væntanlega koma í ljós í svari hæstv. utanrrh. hvernig sú þróun er. Það er samt ljóst að allar breytingar eru viðkvæmar og geta haft áhrif á stöðu manna þegar kemur að ákvörðun um það hvort þeir ætla sér að hætta eða ekki. Þess vegna er spurning hvernig aðlögun er að þeim breytingum sem hugsanlega eru í farvatninu núna, aðlögun sem kemur þá starfslokasamningum inn á aðrar brautir en menn höfðu gert ráð fyrir að yrðu. Það er ákveðinn hópur manna sem hefur beðið eftir starfslokum núna og gert ráð fyrir ákveðinni úrlausn.

Til að fá fram skýr svör við þessu hef ég lagt fyrir hæstv. utanrrh. eftirfarandi fyrirspurn:

1. Hvaða reglur hafa gilt um starfslokasamninga við starfsmenn varnarliðsins 67 ára og eldri sl. fimm ár?

2. Hafa breytingar orðið á þessum reglum, og ef svo er, hvers vegna og hverjar?