Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 12. mars 2003, kl. 20:48:20 (4866)

2003-03-12 20:48:20# 128. lþ. 98.1 fundur 493#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, KPál
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 128. lþ.

[20:48]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í upphafi máls míns vil ég gera grein fyrir tilurð þess nýja stjórnmálaafls sem ég tala hér fyrir. Upphafið má rekja til þeirrar aðfarar sem að mér var gerð innan uppstillingarnefndar Sjálfstfl. í Suðurkjördæmi og á ekki sinn líka í íslenskri pólitík fyrr eða síðar. Fólk víða að úr kjördæminu hefur mjög hvatt mig til sérframboðs vegna þessara atburða og ég hef ákveðið að verða við þeim óskum. Ég og stuðningsmenn mínir höfum því ákveðið að efna til sérframboðs í Suðurkjördæmi fyrir kosningarnar í vor. Það framboð heitir Framboð óháðra í Suðurkjördæmi.

Þetta nýja framboð mun eðli máls samkvæmt hafa sérstakan áhuga á að styrkja lýðræðið innan hins íslenska flokkakerfis og í þjóðfélaginu almennt. Framboð óháðra hefur mótað stefnu í flestum málaflokkum og mun birta hana á næstunni. Í þessari ræðu mun ég geta nokkurra atriða en önnur koma fram síðar.

Um kvótakerfið ríkir enn mikið ósætti meðal þjóðarinnar. Ég hvatti til þess á eldhúsdegi fyrir sex árum að leitað yrði eftir sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Upp úr því var skipuð nefnd mætra manna sem komust að þeirri niðurstöðu að sáttin fælist í auðlindagjaldi á útgerðina. Ekki verður séð að þessi sátt hafi skilað þeim árangri sem að var stefnt.

Kvótakerfið hefur ýmsa kosti. Ef svo væri ekki væri það fyrir löngu aflagt. Gallar þess hafa þó komið í ljós í vaxandi mæli eftir því sem samþjöppun aflaheimildanna hefur aukist. Byggðir landsins hafa látið undan síga og afraksturinn af þessari starfsemi fer í vaxandi mæli á fárra manna hendur. Nú vill stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins lyfta kvótaþakinu úr 12% í 20%. Þar með er komin upp sú staða að fimm útgerðarfyrirtæki gætu eignast allan kvóta landsmanna. Það er rétt hægt að ímynda sér hver yrðu völd og áhrif þeirra fimm fyrirtækja sem ættu kvótann. Alþingi á að finna leiðir til sátta en ekki ýta undir frekari sundrungu sem er gert með því að gefa í skyn að það komi til greina að lyfta kvótaþakinu eins og formaður sjútvn. Alþingis hefur sagt. Ég tel, nær að segja afdráttarlaust, að þetta verði aldrei. Það er frekar orðið tímabært að létta kvóta af ýmsum tegundum til að ná meiri sátt meðal þjóðarinnar. Leið til þess er að gefa frjálsar veiðar á keilu, löngu og skötusel og jafnvel fleiri tegundum. Markmiðið með því er að stefna að meiri sátt um kvótakerfið en nú er. Til þess eru margar leiðir án þess að kollvarpa þjóðfélaginu.

Okkar ágæta samfélag hefur að mörgu leyti þróast til betri vegar síðustu árin og velmegun aukist umfram það sem gerst hefur víða annars staðar í heiminum. Það er ekki tilviljun að efnahagsleg velsæld ríkir hér á landi. Aukið frjálsræði í fjármálalífinu ásamt einkavæðingu hefur skilað sínu og stöðugleikinn haldist. Það er þó blettur á samfélagi okkar að hér er hópur fólks sem líður skort vegna fátæktar. Þetta fólk þarf að aðstoða svo viðunandi sé ef það getur ekki stundað venjulega launavinnu. Það er ekki ölmusa í mínum huga að rétta fólki hjálparhönd, heldur samfélagsleg skylda að aðstoða öryrkja, aldraða, atvinnulausa eða sjúka. Bætur til þessara hópa eru of lágar í allt of mörgum tilfellum.

Ég tek undir það með ASÍ að atvinnuleysisbætur ættu að hækka í 93 þús. kr. á mánuði. Ég tel einnig að skattleysismörkin eigi að hækka. Hækkun þeirra gagnast þessum hópum sérstaklega vel, og launa- og lágtekjufólki almennt.

Ríkisvaldið hefur staðið í deilum við bændur og aðra jarðeigendur um eignarrétt á landi, þ.e. hvort tiltekið land tilheyri bóndanum eða teljist sameign þjóðarinnar, verði svonefnd þjóðlenda. Þjóðlendumálið er á góðri leið með að verða eitt þeirra mála sem framkvæmdarvaldið virðist hafa misst tökin á. Hæstv. fjmrh. fékk heimild í 10. gr. laga um þjóðlendur til að skipa sérstaka kröfunefnd til að lýsa kröfum í þjóðlendur. Í stuttu máli virðist þessi nefnd ráðherrans fara mjög offari.

Nefndin hefur krafist þess að þinglýst eignalönd manna verði þjóðlendur og svo langt er gengið að lönd sem ríkið setti sjálft upp í landskipti við bændur á síðustu öld eru nú undir kröfu um þjóðlendur. Þessi ótrúlega kröfugerð sem er ekki í neinu samræmi við það sem Alþingi taldi sig vera að gera setur allt þetta mál í mikið uppnám.

Ég hef lagt fram till. til þál. þar sem fjmrh. er falið að draga til baka allar kröfur sínar þar sem þinglýstur eignarréttur manna er ekki virtur. Framboð óháðra í Suðurkjördæmi lýsir yfir eindregnum stuðningi við bændur og aðra jarðeigendur í þessu máli og mun berjst hart fyrir því að eignarréttur manna verði virtur.

Bændur eiga undir högg að sækja á fleiri sviðum. Vandi kjötframleiðenda er mikill í dag og ljóst að grípa verður til aðgerða til að mæta honum. Það er hlutverk landbrh. að skoða leiðir til þess að leysa þá offramleiðslu á kjöti sem nú er að koma gamalgrónum kjötframleiðendum á hausinn. Ráðuneyti landbúnaðar hefur skyldur og mannafla til að fylgjast með og gera tillögur en ekki liggja undir feldi. Hraði snigilsins er ekki heppilegur núna.

Ferðaþjónustan er vaxandi og mikilvæg atvinnugrein í landinu og ber að auka samkeppnishæfni hennar. Flest fyrirtæki í greininni eru ný og í uppbyggingu. Framboð óháðra telur fráleitt að auka álögur á þessa atvinnugrein með sérstöku gistináttagjaldi. Lækkun flugvallarskatta á Keflavíkurflugvelli er leið til að fjölga lendingum flugvéla og auka straum ferðamanna til landsins. Það getur ekki verið eðlilegt að heildargjaldtaka af farþegum á Keflavíkurflugvelli sé 76% hærri en í París. Við markaðssetjum Ísland sem ferðamannaland en okkur vantar fleiri ferðamenn. Til að ná betri árangri er nauðsynlegt að vera samkeppnishæf í kostnaði. Þess eru dæmi að flugfélag hafi hætt flugi hingað vegna kostnaðar.

Margvísleg málefni kalla á úrlausn í Suðurkjördæmi, m.a. í heilbrigðisþjónustunni. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er í miklum vanda þar sem deila lækna og ráðuneytis hefur staðið í á fimmta mánuð. Það verður að segjast eins og er að slíkur seinagangur er hreint ótrúlegur. Ég hef oftar en einu sinni tekið þetta mál hér upp en ekkert virðist gerast. Það er ekki boðlegt að stjórnvöld haldi þessari deilu til streitu og óafsakanlegt gagnvart fólkinu á Suðurnesjum.

Atvinnuleysið er einnig viðvarandi á sumum svæðum kjördæmisins. Því miður hefur ráðherra byggðamála ákveðið að taka fjármuni frá eignarhaldsfélögum á landsbyggðinni til að opna Nýsköpunarstofu á Akureyri. Þegar atvinnuleysi var hvað mest á Suðurnesjum í upphafi tíunda áratugarins var eignarhaldsfélag Suðurnesja stofnað. Með tilkomu þess opnaðist leið fyrir fyrirtæki í nýsköpun og uppbyggingu til að fjármagna sig og hafa mörg fyrirtæki notið þess. Hvorki ráðherra byggðamála né ríkisstjórnin hafa svarað því hvernig atvinnuleysinu verði mætt. Ég tel leið að því marki að lækka flugvallarskatta og styrkja eignarhaldsfélögin. Einnig má setja af stað sérstök verkefni sem kalla á mannafla, verkefni í menningartengdri ferðaþjónustu og nýsköpun.

Varnarsamningurinn við Bandaríkin er nú til endurskoðunar. Þar er mikið í húfi en hjá varnarliðinu vinnur mikill fjöldi manna og kvenna. Við endurskoðun samningsins er nauðsynlegt að tryggja stöðu íslenskra starfsmanna varnarliðsins. Mjög brýnt er að hæstv. utanrrh. upplýsi hvernig endurskoðun varnarsamningsins gengur.

Vegakerfi Suðurkjördæmis er víðfeðmt og mörg verk þar að vinna. Tvöföldun Reykjanesbrautar þarf að hraða, Suðurstrandarvegur er mjög þarft verkefni, Hellisheiði þarf að breikka og lýsa og Gjábakkavegur er mjög nauðsynleg tenging fyrir uppsveitir Árnessýslu. Ósabotnavegur milli Sandgerðis og Hafna er góð ferðamannatenging.

Fækkun einbreiðra brúa verður að hraða en slíkar brýr eru 40 talsins í kjördæminu, flestar í Skaftafellssýslum. Herjólfur er í dag þjóðvegur milli lands og Eyja og þarf gjaldtakan í Herjólf því að vera í samræmi við það. Það er ekki auðvelt að finna sanngjarna lausn í málum sem þessum. Útgerð Herjólfs er dýr og fjármagn ekki ótakmarkað. Það er samt flestum ljóst að samfélagið í Eyjum á í vök að verjast og mjög brýnt að bregðast við miklum vanda þar. Góðar og ódýrar samgöngur eru lykillinn að sterku samfélagi. Þær vantar í Vestmannaeyjum í dag.

Góðir Íslendingar. Framboð óháðra í Suðurkjördæmi er rétt að komast á legg. Við sem að því stöndum erum bjartsýn og ánægð með fyrstu skrefin. Ungt fólk og nýjar áherslur í menntamálum verða okkur ofarlega í huga. Við hlökkum til að vinna með ykkur, kæru landsmenn. --- Góðar stundir.