Kjör bænda

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 13:45:39 (4912)

2003-03-13 13:45:39# 128. lþ. 99.94 fundur 499#B kjör bænda# (umræður utan dagskrár), GAK
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[13:45]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Á landsþingi Frjálslynda flokksins um síðustu helgi voru eftirfarandi fimm áherslur flokksins samþykktar um landbúnaðarmálin:

Frjálslyndi flokkurinn vill efla trú og traust þjóðarinnar á íslenskan landbúnað sem keppt geti í framtíðinni á alþjóðlegum samkeppnismarkaði.

Stefnt verði að því að bændur verði frjálsir að allri framleiðslu sinni.

Markmið Frjálslynda flokksins er að auðvelda bændum að nýta landið og fjárfestingar sínar.

Markmið Frjálslynda flokksins er að stöðva og snúa við flótta úr byggðum landsins. Núverandi fyrirkomulagi styrkja í landbúnaði þarf að breyta við lok búvörusamnings með því að stuðla að fjölskylduvænni búsetu. Alþjóðasamningar munu á næstu árum setja á okkur kröfur um lækkandi framleiðslutengda styrki og annan markaðsráðandi stuðning við hefðbundinn landbúnað. Við teljum að það verði að rjúfa þann vítahring sem festir bændur í hefðbundnum landbúnaði, mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, í kvótakerfi og kvótakaupum framtíðarinnar. Unga fólkið sem á að geta tekið við búskap í sveitum landsins mun að óbreyttu verða þrælar kvótakaupa eða kvótaleigu af afurðastöðvum þegar að því kemur að það vill kaupa sér jörð og hefja búskap. Það þarf með öllum ráðum að vinna að því að fólkið sem vill búa í sveitum landsins festist ekki í fátæktargildru leiguliða eða sem ,,besti vinur bankanna``, sem greiðir hverja krónu sem afgangs er í vexti og dráttarvexti af framleiðslukvótakaupum í mjólkurlítrum eða ærgildiskvótum.

Frjálslyndi flokkurinn vill efla trú og traust þjóðarinnar, ekki síst unga fólksins, á íslenskan landbúnað sem keppt geti í framtíðinni á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Framtíðarforsenda íslensks landbúnaðar er að bændur verði frjálsir að framleiðslu sinni.

Markmið Frjálslynda flokksins er að auðvelda bændum að nýta landið og fjárfestingar sínar. Frjálslyndi flokkurinn lítur svo á að viðfangsefni landbúnaðar sé landnýting, þ.e. nýting garða, túna, akra, haga, afréttar og annarra verðmæta sem bændur hafa skapað.

Eins og nú standa sakir þarf að selja úr landi milli 400 og 500 tonn af lambakjöti. Hækkun persónuafsláttar og skattafsláttur vegna barna, sem Frjálslyndi flokkurinn vill lögleiða, mundi að sjálfsögðu bæta hag þeirra bænda sérstaklega sem nú búa við allt of lág laun.