Raforkuver

Fimmtudaginn 13. mars 2003, kl. 14:44:25 (4934)

2003-03-13 14:44:25# 128. lþ. 99.12 fundur 670. mál: #A raforkuver# (Norðlingaölduveita, Nesjavallavirkjun og Hitaveita Suðurnesja) frv. 67/2003, Frsm. meiri hluta HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 128. lþ.

[14:44]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ekki neinir útúrsnúningar enda staðfesti hv. þm. það. Fyrir liggur mat Orkustofnunar á því að fara í gufuaflsvirkjun á Nesjavöllum, að bæta við fjórðu túrbínunni. Einnig liggur fyrir mat þeirra um jarðvarmavirkjun á Reykjanesi á grundvelli ítarlegrar rannsóknar. Það er Orkustofnun sem mælir með því. Skipulagsstofnun hefur mælt með því að lokinni ítarlegri skoðun að bæta við túrbínu á Nesjavöllum. Með öðrum orðum, það eru sérfræðingar Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja annars vegar sem mæla eindregið með þessu. Orkustofnun sem hlutlaus aðili, sérfræðiaðili í stjórnsýslunni mælir með þessu og ég fæ þá ekki séð að sú forsenda standist sem hv. þm. gaf sér að hér væri verið að fara óeðlilega hratt. Menn hafa rannsakað þessi svæði afskaplega vel og að lokinni ítarlegri skoðun er þetta niðurstaða og mat sérfræðinga.

Hvað varðar síðan hið einhæfa atvinnulíf sem hv. þm. nefndi rétt einu sinni, þá vil ég enn einu sinni nefna það að hér er verið að skjóta frekari stoðum undir efnahagslíf okkar. Við verðum þá með tvö allburðug egg í efnahagskörfu okkar í stað þess að hafa bara eitt. Enn fremur vil ég minna á það að fjölmörg nýsprotafyrirtæki hafa sprottið upp af samstarfi við hina öflugu vinnustaði sem álver eru og nægir í því sambandi að menn benda á nýsköpunarverðlaun Útflutningsráðs sem voru afhent nýlega. Það var fyrirtæki Jóns Hákons Magnússonar sem fékk slík verðlaun fyrir hugbúnað og vélbúnað sem hefur verið þróaður upp með álverinu í Straumsvík og er notaður síðan til útflutnings. Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum um hvernig nýsköpun hefur þróast í samstarfi við álverin hér á Íslandi.