Matvælaverð á Íslandi

Fimmtudaginn 03. október 2002, kl. 11:39:29 (52)

2002-10-03 11:39:29# 128. lþ. 3.1 fundur 3. mál: #A matvælaverð á Íslandi# þál., Flm. RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 3. fundur, 128. lþ.

[11:39]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki þennan málflutning. Það er eins og verið sé að segja: Kannski erum við svo heppin að myntbreyting í Evrópu hafi orðið til þess að menn hafi með myntbreytingunni svindlað verðinu svolítið upp á við og gert vörur dýrari í þeim Evrópulöndum sem hafa tekið upp nýja mynt heldur en þær þurfa að vera og þá sé munurinn minni á Evrópulöndum og okkur en hann er annars.

Ég er að leita staðreynda um það hvert matarverð á að vera. Er það lögmál að matur eigi að vera dýrari á Íslandi en í nágrannalöndum þar sem laun eru hærri? Væntanlega ætti framleiðslukostnaður jafnframt að vera hærri. Svar mitt er nei. Ég veit ekki orsakirnar og ég ætlast til þess að þingmenn í þessum sal sameinist um að vilja leita þeirra.