Útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl

Mánudaginn 07. október 2002, kl. 17:07:15 (306)

2002-10-07 17:07:15# 128. lþ. 5.7 fundur 6. mál: #A útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 128. lþ.

[17:07]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hér hreyft mjög áhugaverðu máli en verð að viðurkenna að ég þekki ekki þessi mál nægilega vel og það vakna hjá mér spurningar.

Það kemur fram í greinargerð með frv. að langbylgjusendingar hafa verið skertar og stuttbylgjusendingar aflagðar. Auðvitað höfum við öll fundið það þegar við erum á ferðalagi um landið eða stödd einhvers staðar þar sem eru orðnar miklar fjarlægðir að mjög erfitt getur verið að ná bæði útvarpi og sjónvarpi. Það er full ástæða til að skoða hvernig úr því sé unnt að bæta.

En nú hefur það gerst t.d. hvað Evrópu varðar að hægt er að ná fréttum í útvarpi og sjónvarpi í mörgum löndum í gegnum tölvuna, til óblandinnar ánægju ýmsum þeim sem búa erlendis og langar að fylgjast með heima. Ég átta mig ekki á hvernig tengingar það eru.

Mig langar að spyrja 1. flm. og frsm. í þessu máli: Ef farið yrði út í þetta og unnt reyndist að hefja útsendingar sjónvarps og útvarps í gegnum gervitungl, yrði þetta þá sérstök viðbót við það sem er fyrirhugað að byggja upp hér innan lands með öðrum og hefðbundnum hætti eða mundi þetta í einhverju breyta þróun uppbyggingar innan lands? Eiginlega er spurningin um það hvort það að skoða útsendingar um gervitungl mundi vera eitthvað sem gæti orðið í auknum mæli, ekki endilega til fjarlægra staða eða staða sem erfitt er að ná til, heldur eitthvað meira sem við höfum ekki gert ráð fyrir að fara í. Hefur þetta áhrif á þróunina innan lands varðandi útvarps- og sjónvarpssendingar?