Málefni aldraðra og húsnæðismál

Miðvikudaginn 09. október 2002, kl. 16:04:24 (412)

2002-10-09 16:04:24# 128. lþ. 7.94 fundur 161#B málefni aldraðra og húsnæðismál# (umræður utan dagskrár), KPál
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hv. málshefjandi fór mikinn um að öldruðum væri gert ókleift að búa í eigin húsnæði vegna kostnaðarins sem því fylgir. Ég hygg að hv. þm. hafi ekki kynnt sér nægjanlega vel reglur um lánveitingar í Íbúðalánasjóði í dag. Aldraðir íbúðaeigendur geta selt stærri eignir sínar og keypt minni í staðinn og fengið full lán í Íbúðalánasjóði til þeirra kaupa. Því var breytt fyrir tveimur árum. Með þeim hætti geta aldraðir ekki bara fengið minni íbúðir og fengið fé í milli heldur geta aldraðir um leið lækkað fasteignagjöld sín, tryggingagjöld, viðhaldskostnað og annað sem fylgir því að eiga stór hús. Þetta hefur komið öldruðum sérstaklega vel og reyndar öllum sem á því þurfa að halda að minnka við sig húsnæði. Mér finnst einhvern veginn eins og umræðan hjá hv. málshefjanda og fleirum sé ekki alveg í takt við raunveruleikann.

Það hefur einnig verið gert mjög mikið í því af hálfu Íbúðalánasjóðs á undanförnum árum að reyna að mæta þörfum aldraðra og öryrkja að ýmsu leyti. Ég get tekið sem dæmi að sérlánaflokkurinn hefur reynst mönnum mjög vel sem þurfa að breyta íbúðum sínum og húsnæði. Lánað hefur verið til Búmanna 1,6 milljarða á síðustu mánuðum vegna leiguíbúða úti um allt land. Hjúkrunarheimilið Eir hefur fengið 530 millj. til leiguíbúða bara á þessu og næsta ári. Naustaver hefur fengið 870 millj. til hins sama á næstu tveimur árum. Að að þessu leyti hefur því verið brugðist mjög vel við til að mæta þörfum aldraðra fyrir húsnæði.

Auðvitað má alltaf gera betur. Um það efast enginn. Þar sem saman hafa komið félagasamtök, sveitarfélög og ríki, hefur þetta oft gengið verr en skyldi en það er fullur vilji til að bæta úr þessu.