Skattfrelsi lágtekjufólks

Fimmtudaginn 10. október 2002, kl. 13:59:56 (465)

2002-10-10 13:59:56# 128. lþ. 8.4 fundur 10. mál: #A skattfrelsi lágtekjufólks# þál., GAK
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 128. lþ.

[13:59]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég fór í fyrri ræðu minni örfáum orðum um annað málefni sem tengist afkomu launþega, sérstaklega lífeyrisþega, og þeirra sem þurfa að lifa af bótum almannatrygginga eða örorkubótum og vék þar að hinum svokölluðu jaðarskattaáhrifum. Því miður náði ég ekki að segja allt í því máli sem ég vildi sagt hafa og langar aðeins að bæta þar um betur.

Í greinargerð með þessari ágætu tillögu sem hér er verið að ræða segir um skattfrelsi lágtekjufólks að það sé hugsað þannig að virkni tillögunnar nái eingöngu til þeirra sem hafa sér til framfærslu tekjur frá skattleysismörkum og að lágmarkslaunum. Síðan segir aðeins neðar í greinargerð tillögunnar:

,,Verulegar breytingar hafa orðið á skattgreiðslu láglaunafólks og lífeyrisþega á síðustu árum. Samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar á sl. ári greiddi láglaunafólk og lífeyrisþegar með laun og bætur undir 90 þús. kr. á mánuði um 1 milljarð kr. í tekjuskatt og útsvar. Þá er miðað við heildarlaun og greiðslur frá Tryggingastofnun og úr lífeyrissjóði, auk atvinnuleysisbóta, húsaleigubóta og fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga.``

Það sem ég vék aðeins að hér í morgun varðandi jaðarskattaáhrifin kemur inn á tillöguna sem ég gat um í máli mínu fyrr, sem við hv. þm. Sverrir Hermannsson fluttum á síðasta þingi og munum endurflytja á næstunni, um tryggan lágmarkslífeyri. Í samantekt Alþýðusambands Íslands þar sem gerð var sérstök úttekt á velferðarkerfinu og hvert við vildum stefna --- haldin var ráðstefna um velferðarkerfið 28. mars 2001 og var gefin út sérstök bók um það með ýmsum mjög gagnlegum upplýsingum --- kom greinilega fram að ef ellilífeyrisþegi á rétt á hámarksbótum á hann einnig rétt á sérstakri heimilisuppbót og gat þá hæst komist í um 75 þús. kr. Það sem hins vegar gerist ef ellilífeyrisþegi á smá rétt í lífeyrissjóði er að um leið og hann fær greiðslu úr lífeyrissjóði, þá eyðist skarpt af þessum bótaflokkum. Þess vegna gekk sú hugsun sem við þingmenn Frjálslynda flokksins lögðum til varðandi þessi jaðarskattaáhrif út á það að þeir sem fengju lægri greiðslur úr lífeyrissjóði en t.d. 40.000 kr. yrðu ekki fyrir skerðingu á bótaflokkum sínum. En eins og kerfið er sett upp í dag má nánast segja að ef lífeyrisþegi á 10 þús. kr. í rétt, einar skitnar 10 þús. kr. í rétt úr lífeyrissjóði sem því miður eru einhver dæmi um --- og það eru reyndar dæmi um að örorkulífeyrisþegar eigi engan rétt í lífeyrissjóði af því að þeir hafa aldrei aflað sér réttinda í lífeyrissjóði vegna þess þeir hafa ekki starfað á vinnumarkaðnum. En ef við tökum dæmi af manneskju sem á bara 10 þús. kr. rétt í lífeyrissjóði og fær þær til viðbótar þessum 75 þús. kr. úr almannatryggingakerfinu, hvað gerist þá, herra forseti? Þá gerist það að við það að eiga þennan 10 þús. kr. rétt og hafa lagt þær krónur í lífeyrissjóð á starfsævi sinni og myndað þennan rétt, þá lækka bæturnar um 6 þús. kr. strax og lífeyrisþeginn á þennan litla rétt. Þetta eru hin svokölluðu jaðarskattaáhrif. Síðan er þetta lagt saman við bótaflokkinn sem þá er eitthvað um 69 þús. kr. plús þessar 10 þús. kr., eða 79 þús. kr. í tekjur og þá byrjar launþeginn að borga skatt af þessum 79 þús. kr. til viðbótar við þær 6 þús. kr. sem hann tapaði í bótunum. Skattleysismörkin eru rétt rúmar 70 þús. kr. í dag og þá mundi lífeyrisþeginn borga skatt af þessum 9.000 kr.

Þegar upp er staðið og dæmið skoðað um þennan rétt launþegans úr lífeyrissjóðnum upp á 10 þús. kr., þá stendur ákaflega lítið eftir þegar búið er fyrst með jaðarskattaáhrifum að eyða 6 þús. kr. og síðan kemur tekjuskatturinn til viðbótar af þeim 9 þús. kr. sem eru umfram skattleysismörkin.

Ef þessi viðkomandi lífeyrisþegi ætti nú 15 þús. kr. rétt úr lífeyrissjóði, þá hefðu vegna þeirra greiðslna ef hann hefði notið fullra bóta, almannatrygginga- og ellilífeyrisbæturnar lækkað um tæplega 10 þús. kr. út á þessar 15 þús. kr. eins og þetta kerfi okkar virkar.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það ömurleg uppsetning á bótakerfi þegar fólk sem hefur unnið sér inn mjög lítil lífeyrisréttindi í lífeyrissjóði og er að fá það sem viðbót við ellilífeyrisbæturnar, þegar þessar litlu bætur úr lífeyrissjóðnum byrja á því að skerða hinar almennu bætur úr almannatryggingakerfinu og koma svo þar að auki á eftir til skattlagningar.

Þetta er vandamál sem vonandi mun eyðast út á næstu 20--25 árum. Þá verða vonandi engir Íslendingar sem eiga minni lífeyrisrétt en 40--50 þús. kr. rétt í lífeyrissjóði og vonandi allir þaðan af meira. En vegna þess hversu ungt lífeyrissjóðakerfi okkar er og eins hitt að margir hópar launþega greiddu ekki í lífeyrissjóð af öllum launum sínum og börðust við það árum saman að ná þeim samningum við atvinnurekendur að fá að greiða í lífeyrissjóð af öllum launum sínum, þá hefur lífeyrisrétturinn myndast með þessum hætti. Hann er ekki hár en samt sem áður dugar sá litli lífeyrir sem menn eiga til að virka strax inn á ellilífeyrinn og skerða hann og síðan kemur skattlagning til viðbótar.

Og þess vegna var hugsunin sú, sem við í Frjálslynda flokknum lýstum í þáltill. sem ég hef aðeins minnst hér á, að reyna með þessari útfærslu að koma í veg fyrir að jaðarskattaáhrifin kæmu strax til framkvæmda við lágmarksbætur úr lífeyrissjóði.