Barnalög

Þriðjudaginn 15. október 2002, kl. 15:45:39 (554)

2002-10-15 15:45:39# 128. lþ. 10.3 fundur 180. mál: #A barnalög# (heildarlög) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 10. fundur, 128. lþ.

[15:45]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er mjög eðlilegt að verða við þessari beiðni hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Ég geri ráð fyrir að nefndin komi ekki til með að mæla gegn því að þessi frv. verði send út samhliða.

En ég vil líka benda á að í 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna segir að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð. Þetta er alveg skýrt og klárt. Sameiginleg ábyrgð er samt ekki endilega það sama og sameiginleg forsjá. Og ég geri ekki ráð fyrir því að þótt annað foreldrið hafi forsjána telji hitt foreldrið sig allt í einu orðið ábyrgðarlaust. Ég geri ekki ráð fyrir að foreldrar líti svo á.

En að sjálfsögðu munum við líta til þessarar skýrslu sem hv. þm. hefur bent á og skoða öll gögn gaumgæfilega því það er metnaður allra, eins og ég sagði áðan, að við afgreiðum héðan frv. sem skilar fyrst og fremst börnunum góðum árangri. Það væri hins vegar ekki verra ef allt samfélagið væri tilbúið til að taka þátt í því.