Val kvenna við fæðingar

Miðvikudaginn 16. október 2002, kl. 14:19:05 (592)

2002-10-16 14:19:05# 128. lþ. 12.3 fundur 69. mál: #A val kvenna við fæðingar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 12. fundur, 128. lþ.

[14:19]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjendum fyrir þessa fyrirspurn. Ég tel þessar umræður afskaplega fróðlegar. Þær hjálpa konum og væntanlegum foreldrum að átta sig á þeim möguleikum sem eru til staðar í landinu fyrir fæðingar.

Mér þótti gott að heyra að hv. fyrirspyrjandi taldi hér upp Sjúkrahúsið í Keflavík, sem hefur verið með mjög framsækna og farsæla starfsemi á fæðingardeildinni. Þar er afskaplega gott fagfólk sem hefur einmitt undanfarið verið að reyna að efla þessa starfsemi og auglýsa hana þannig að fólk átti sig á því, t.d. fólk á höfuðborgarsvæðinu, að þarna er þessi þjónusta, þarna er aðstaða, þarna er fagfólk á heimsmælikvarða sem getur tekið á öllum þeim vandamálum sem koma upp við fæðingar. Ég vildi sérstaklega vekja athygli á þessu máli og þeim möguleikum sem höfuðborgarsvæðið, sem teygir sig í allar áttir, hefur hér í grenndinni.