Staða heilsugæslunnar

Fimmtudaginn 31. október 2002, kl. 13:32:43 (824)

2002-10-31 13:32:43# 128. lþ. 19.94 fundur 199#B staða heilsugæslunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 19. fundur, 128. lþ.

[13:32]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Heilsugæslan í landinu er í kreppu. Biðtími eftir læknaviðtali sums staðar á landinu, einkanlega á suðvesturhorninu, getur verið nokkrir dagar, jafnvel í sumum tilfellum nokkrar vikur. Ástæður þess eru einfaldlega þær að læknar eru allt of fáir til að hægt sé að veita þá þjónustu sem lög gera ráð fyrir. Þetta gerist jafnvel þótt fyrir liggi að stór hópur sjúklinga fari fram hjá þessari fyrstu viðkomustöð fólks í heilbrigðiskerfinu og leiti á náðir annarra sérfræðinga í tilteknum greinum. Og nú stefnir í lokun nokkurra heilsugæslustöðva.

Sumir tala um að heilsugæslan sé ekki eingöngu í kreppu, hún sé að hruni komin ef ekki verður snarlega og myndarlega gripið í taumana. Það er fólksflótti hjá heilsugæslulæknum. Þeir hafa farið einn af öðrum út úr greininni, sumir til útlanda, aðrir í önnur störf innan heilbrigðisgeirans. Þeir segja ástæðuna ekki eingöngu varða kjör þeirra heldur og ekki síður réttarstöðu gagnvart öðrum sérfræðingum í heilbrigðisþjónustunni Allt of fáir stunda nám í þessum fræðum til að tryggja að nauðsynleg nýliðun geti átt sér stað, hvað þá fjölgun. Ástandið er einfaldlega grafalvarlegt.

Í dag er síðasti vinnudagur sex af átta læknum heilsugæslustöðvarinnar á Suðurnesjum. Í gær nefndi heilbrrh. að hann vonaðist til að þeir mundu sjá sig um hönd og una nýlegum úrskurði kjaranefndar og halda áfram. Það gerist því miður ekki. Ég heyrði frá heimamönnum í morgun og það er enn þá stál í stál. Heilsugæslustöðin lokar á morgun að mestu leyti. Það er ófært.

Eftir fjórar vikur gerast sömu hlutir í Hafnarfirði. Þar hafa allir heilsugæslulæknar sagt upp störfum og ganga út að óbreyttu 1. desember nk. Á Ísafirði hafa fjórir af sex heilsugæslulæknum sagt upp störfum. Víðar á landinu er svipaða sögu að segja, 30 uppsagnir liggja fyrir, fleiri eru á leiðinni að óbreyttu ástandi.

Ekki hefur gengið að gangsetja nýja heilsugæslustöð í Kópavogi enda þótt húsnæði sé til staðar.

Ég nefndi Hafnarfjörð, herra forseti. Mér er minnisstætt að á árum mínum sem bæjarstjóri þar í bæ, 1986--1993, hafði ég mikil og góð samskipti við forsvarsmenn heilsugæslustöðvarinnar og fann fyrir þeim mikla metnaði og krafti sem einkenndi lækna, hjúkrunarfólk og annað starfsfólk til að efla, útvíkka og bæta þjónustuna. Það var gert. Má þar nefna slysamóttöku vegna minni háttar óhappa sem opin var á kvöldin og dró mjög úr heimsóknum á slysadeild Borgarspítalans. Almenningur var mjög ánægður með heilsugæsluna sína. Því er sárgrætilegt hvernig málum er nú fyrir komið í Hafnarfirði og víðar um land þar sem læknar og starfsfólk eru að gefast upp á núverandi ástandi. Álagið er allt of mikið, læknar of fáir, kjör þeirra og réttarstaða, að þeirra áliti, óviðunandi og það að skjólstæðingar fá ekki viðtal fyrr en eftir dúk og disk. Við svo búið má ekki standa.

En hvað er til ráða? Þetta er ekki einfalt úrlausnar. Þetta er ekki kjaradeila í hefðbundnum skilningi þess orðs þó að ráðuneyti heilbrigðismála hafi reynt að leggja málið út með þeim hætti. Málið er miklu flóknara en svo.

Ástæðan er ekki síst sú að ekki hefur verið tekið á þessum viðfangsefnum árum saman og vandamálin hafa hrannast upp og orðið illleysanleg. Kjaranefndarúrksurður árið 1996 skapaði úlfúð og vandkvæði, úrskurður um vottorðamálið sömuleiðis, afstaða til svokallaðs 10%-sjóðs og niðurlagningar hans enn fremur. Fleira mætti til tína. Uppsöfnuð kergja er til staðar innan heilsugæslunnar.

Sumir hafa viljað setja málið þannig upp að læknar séu að taka yfirvöld og sjúklinga í gíslingu, þarna séu á ferðinni gírugir og vel launaðir starfsmenn hins opinbera. Aðrir segja hins vegar að óbilgirni og fálæti kerfisins, heilbrrh. og heilbrrn., hafi framkallað þetta ófremdarástand. Hvorugt er rétt. Svona stríðsyfirlýsingar leysa engin vandamál. Einhendum okkur í að finna lausnir.

Hlutskipti Jóns Kristjánssonar heilbrrh. er ekki öfundsvert, ekki síst þegar til þess er litið að hann lýsti því yfir þegar hann tók við starfi heilbrrh. að hans helsta áhugamál væri að efla heilsugæsluna í landinu. Það hefur því miður farið allt á annan veg. Mér dettur ekki annað í hug en að ráðherra vilji gera allt sem í hans valdi stendur til að stuðla að lausn mála en það hefur honum ekki tekist, því miður.

Mitt mat er að óhjákvæmilegt sé að taka fyrirkomulag heilsugæslunnar og raunar um leið störf sérfræðinga annarra í heilbrigðisgeiranum til heildarendurskoðunar. Á að leyfa heilsugæslulæknum að stunda stofurekstur á sama hátt og öðrum sérfræðingum? Það er ein lykilspurningin. Eftir að hafa farið yfir málið með öllum hlutaðeigandi aðilum þá er það mitt mat að hjá því verði ekki komst að einhverju marki samkvæmt skýrum og þröngum reglum að opna fyrir þá gátt. Heilsugæslan þarf einfaldlega nýja vítamínssprautu og ráðherrann á að lýsa því yfir að þeir möguleikar verði opnaðir, kalla saman samráðsnefnd aðila og kortleggja nákvæmlega hvernig best verði að því staðið. Það mundi efla heilsugæslustigið. Um það er engin spurning.

En mundi það stórlega auka útgjöld? Það er ekki endilega sjálfgefið. Það þarf að kostnaðargreina og þarfagreina þann þátt málsins. Sumir halda því fram að slík breyting mundi fyrst og fremst þýða tilfærslu á fjármagni frá útgjöldum til sérfræðinga í öðrum greinum til sérfræðinga í heimilislækningum. Við horfum framan í fjölmörg rekstrarform í heilsugæslunni í dag. Því vill enginn breyta.

Eftir sem áður er það mitt mat að heilsugæslustöðvar verði og eigi að vera kjölfesta þjónustu á þessu stigi, heilbrigðisþjónustu, og þeim læknum sem vilja eingöngu starfa innan þeirra verði umbunað sérstaklega eins og gerist og gengur á sjúkrahúsum.

Heilsugæslan er snar þáttur í þjónustu sveitarfélaga. Frekari aðkoma sveitarfélaga er mikilvæg í þessum efnum. En það má engan tíma missa. Við verðum að snúa við blaði og ná sátt við alla hlutaðeigandi aðila um stefnu og verklag sem leysir málið. Ég vil ekki umræðu um þessi mál í upphrópanastíl. Ég er ekki með árásir á ráðherra. Ég vil hins vegar að við stefnum að lausn málsins og vinnum með heilbrigðisstarfsfólki að því. Leysum þá kreppu sem til staðar er. Tryggjum fólki lágmarksþjónustu. Það er mergurinn málsins. Þess vegna hef ég beint þeim spurningum til heilbrrh. sem hann hefur hjá sér og lúta að því hverjar tillögur hans séu. (Gripið fram í: Þingmaðurinn vill einkarekstur.) (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Velkominn í hópinn.)