Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001

Fimmtudaginn 07. nóvember 2002, kl. 11:10:09 (1176)

2002-11-07 11:10:09# 128. lþ. 25.1 fundur 228#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 2001# (munnl. skýrsla), ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 128. lþ.

[11:10]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Það er rétt sem fram kom áðan í máli hv. þm. Halldórs Blöndals að allshn. Alþingis ræddi þessa skýrslu umboðsmanns Alþingis á fundi nefndarinnar á mánudaginn 4. nóvember og það var góður og mjög upplýsandi fundur að mínu mati fyrir alla nefndarmenn allshn.

Þessi skýrsla umboðsmannsins fyrir árið 2001 var rædd nokkuð gaumgæfilega og fóru umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, og Elín Blöndal, skrifstofustjóri hjá umboðsmanni, vel yfir helstu atriði sem þau vildu vekja athygli nefndarmanna á. Þetta er nokkuð hefðbundin skýrsla og með hefðbundnu sniði eins og þeir þekkja til sem hafa kynnt sér skýrslur umboðsmanns á undanförnum árum.

Fram kemur í skýrslunni að málafjöldi hefur aukist. Skráð voru 248 mál á árinu en á árinu 2000 voru skráð 232 mál, og m.a. er nokkur fjölgun mála í heilbrigðisþjónustunni.

Mál eru aðeins skráð hjá umboðsmanni að um sé að ræða kvörtun og að hún liggi fyrir skriflega eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. Einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín munnlega og leiti upplýsinga. Það kom einnig fram að töluverður tími hjá starfsfólki umboðsmanns fer í að greiða úr málum sem einstaklingar leita til skrifstofu umboðsmanns með án þess þó að þau séu skráð og reynir þá umboðsmaður og starfsfólk hans að beina þeim málum í réttan farveg innan stjórnsýslunnar. Var umsýsla þessara mála á árinu 2001 nokkuð meiri en oft hefur verið.

Varðandi málshraðann eða afgreiðslutíma stjórnvalda á erindum umboðsmanns þá hefur umboðsmaður sett sér það markmið að afgreiðslutími mála hjá embættinu styttist þannig að nú er stefnt að því að niðurstaða liggi fyrir í málum innan sex mánaða frá því að kvörtun berst á skrifstofu og er það fagnaðarefni. Var þess sérstaklega getið að nú liggja einungis fyrir mál frá árinu 2002 hjá umboðsmanni Alþingis.

Við verðum líka að hafa í huga eðli málanna sem koma til kasta umboðsmanns Alþingis. Þau eru mismunandi og því er oft og tíðum ekki hægt að hafa einn algildan afgreiðslutíma á þessum málum. Afgreiðslutími mála hjá umboðsmanni markast því að verulegu leyti líka af því hvernig stjórnvöld sem hlut eiga að máli bregðast við fyrirspurnum og beiðnum um skýringar í tilefni af tilteknum málum. Hefur umboðsmaður lagt áherslu á að kynna stjórnvöldum þetta markmið og mælst til þess að þau hraði svörum sínum eins og kostur er.

Umboðsmaður hefur nýverið ákveðið að setja stjórnvöldum frest til að senda umbeðin gögn eða skýringar, með vísan til lokaákvæðis 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga. Er þetta gert í þeim tilgangi að umboðsmaður nái betur að skipuleggja úrvinnslu mála og á ekki að vera íþyngjandi fyrir stjórnvöld þar sem athugun umboðsmanns beinist að jafnaði að tilteknu máli sem þegar hefur fengið úrlausn hjá stjórnvaldinu. Ástæða fyrir þessu er einnig sú að stjórnvöld hafa stundum dregið úr hömlu, því miður, að svara erindi umboðsmanns, eins og kemur fram í skýrslunni á bls. 10.

Umboðsmaður hefur jafnframt hvatt til þess að stjórnvöld setji sér reglur í þessum efnum, þ.e. hversu fljótt eigi að svara erindum eða bréfum frá umboðsmanni, en óvíða eru til reglur um slíkt. Þá leiðir umboðsmaður líkur að því að fjöldi kvartana vegna tafa hjá stjórnvöldum verði að einhverju leyti skýrður með því að þess sé ekki gætt nægjanlega af hálfu stjórnvalda að tilkynna um fyrirsjáanlegar tafir á afgreiðslu mála og skýra ástæður þeirra, en skv. 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga er stjórnvöldum skylt að viðhafa slíka málsmeðferð. Þannig leggja stjórnvöld grunninn að réttum og eðlilegum samskiptum við almenning sem er grundvöllurinn að því trausti sem þarf að ríkja á milli stjórnsýslunnar og borgaranna, og m.a. var embætti umboðsmanns Alþingis grundað á þessu trausti sem þarf að ríkja á milli þessara aðila. Það er sem sagt takmarkið. Það kom fram í máli umboðsmanns að markið verði sett við að tilkynnt verði fyrir fram um þessar tafir og einnig að hvert stjórnvald, hvort sem það er ráðuneyti eða sveitarstjórn, setji sér reglur um svörin, þ.e. hvenær, innan hvaða tíma, þau ætla að svara bréfum og erindum.

[11:15]

Að sjálfsögðu ætlar umboðsmaður nú sem endranær að reyna að vinna þetta með stjórnvöldum. Umboðsmaður er að áliti margra ekki lögregla gagnvart stjórnsýslunni heldur er hann eftirlitsaðili sem vill og ætlar sér að vinna með stjórnvöldum til að tryggja enn betur réttaröryggi borgaranna. Þessu verður vonandi fylgt fast eftir.

Mikill fjölbreytileiki hefur einkennt málafjöldann hjá umboðsmanni. Viðfangsefni stjórnsýslu og sveitarfélaga endurspeglast í margbreytileika þeirra mála sem umboðsmaður Alþingis fær til meðferðar. Mál á sviði almannatrygginga og félagsþjónustu sveitarfélaga og mál sem varða skatta og gjöld og málsmeðferð og starfshætti stjórnsýslunnar eru almennt fyrirferðarmikil. Sérstaka fjölgun á árinu 2001 má sjá á málum sem flokkuð eru undir heilbrigðisþjónustuna, eins og ég gat um áðan, og mál sem varða opinbera starfsmenn.

Á bls. 27 í skýrslunni sjáum við skiptingu skráðra mála árið 2001 eftir viðfangsefnum. Ég ætla að fara yfir helstu viðfangsefnin sem þar koma fram.

Í fyrsta lagi eru þar fangelsismál. Þau komu til kasta umboðsmanns á árinu 2001 og eru nokkuð umfangsmikil í skýrslunni fyrir það ár. Í skýrslunni er m.a. lýst erfiðleikum við að taka á einstaka tilvikum þar sem fáar skráðar reglur séu til um fanga og agaviðurlög í fangelsum. Ég vil geta þess að nú eru í undirbúningi, vonandi er verið að leggja lokahönd á það í ráðuneytinu, frv. til laga um fanga og fangelsisvist. Jafnframt ítrekar þessi mikla umfjöllun umboðsmanns mikilvægi þess að því verði hraðað að byggja upp vistunar- og gæsluvarðhaldsfangelsi fyrir fanga þannig að hægt verði að sinna þeim betur, sérstaklega þeim sem hafa átt við vímuefnavanda að stríða. Það hefur ekki verið gert sem skyldi og væri mjög til bóta fyrir samfélagið ef fangelsi af því tagi kæmist á laggirnar.

Rekstrarform opinberra fyrirtækja og stofnana kom líka til tals á fundi umboðsmanns og allshn. Umboðsmaður bendir á að breytt rekstrarform fyrirtækja og stofnana leiði oft til óvissu. Telur umboðsmaður að þróun í einkavæðingu opinberrar þjónustu og verkefna leiði til þess að mikilvægt sé að tekin verði afstaða til þess, þegar slík formbreyting á sér stað, hvort og þá í hvaða mæli hinar almennu stjórnsýslureglur og einnig reglur stjórnsýslulaga og upplýsingalaga eigi að gilda um starfsemina. Það er hvorki starfseminni né borgurunum í hag að réttaróvissa sé um þetta. Sérstaklega er þetta talið eiga við þegar farin er sú leið af hálfu ríkis og sveitarfélaga að færa starfsemi yfir í hlutafélag eða annað einkaréttarlegt form án þess að nein breyting verði á eignarhaldi eða verkefnum. Umboðsmaður telur það hlutverk löggjafans og þeirra sem taka ákvörðun um slíkar formbreytingar að taka afstöðu til þess í hvaða mæli sjónarmið um aukið hagræði og skilvirkni við framkvæmd opinberrar þjónustu eigi að skerða réttaröryggið sem býr á bak við tilvist almennra stjórnsýslureglna í samskipti stjórnvalda og borgaranna.

Hann bendir einnig á að skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum og mannréttindasáttmála Evrópu komi oft til kasta hans. Með tilkomu EES-samningsins hefur umfang þeirra reglna sem stjórnsýslan þarf að huga að við úrlausn ýmissa mála aukist verulega. Umboðsmaður hefur í nokkrum tilvikum gert athugasemdir við að stjórnvöld hafi ekki við úrlausn máls gætt þess að taka afstöðu til reglna og skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Einnig hefur umboðsmanni þótt skorta á að við úrlausn mála hafi verið tekið mið af reglum mannaréttindasáttmálans eins og Mannréttindadómstóll Evrópu hefur skýrt þær.

Varðandi frumkvæðismál, sem snerta 5. gr. laga um umboðsmann Alþingis, getur umboðsmaður að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Hann getur þá jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Þetta frumkvæðiseftirlit er sérstaklega til þess fallið að veita umboðsmanni Alþingis færi á að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni og þar með rækja hið lögbundna hlutverk að tryggja rétt borganna gagnvart stjórnvöldum landsins. Ákvörðun umboðsmanns að taka mál til athugunar að eigin frumkvæði hefur orðið tilefni til viðbragða hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum sem gefa honum ástæðu til þess að ætla að stjórnvöld ætli sjálf að hafa frumkvæði að breytingum á þeim atriðum sem umboðsmaður áformar að taka til athugunar. Í samræmi við lagasjónarmið sem starf umboðsmanns Alþingis byggir á hefur umboðsmaður lagt áherslu á að í þeim tilvikum er stjórnvöld lýsa vilja til að bæta úr þeim atriðum sem hann hefur séð ástæðu til að skoða fái þau hæfilegan tíma til þess áður en til frekari athugunar kemur af hálfu umboðsmanns. Það veldur hins vegar nokkrum vanda í störfum umboðsmanns þegar verulegur dráttur verður á að áform stjórnvalda gangi eftir og umræddar breytingar verði að veruleika. Dæmi um það eru m.a. nefnd í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2001.

Herra forseti. Niðurstaða mín, eftir þennan fund með umboðsmanni Alþingis og eftir að hafa farið nokkuð vel yfir þessa skýrslu hans fyrir árið 2001, er að eftir sem áður sé embætti umboðsmanns Alþingis afar mikilvægt fyrir borgara í þessu samfélagi ekki síður en fyrir Alþingi. Ég tel þetta gott tækifæri til að allshn. og síðan þingmenn í þessum sal fái tækifæri til að fylgjast með því hvernig eftirliti með störfum stjórnvalda hefur verið háttað. Að mínu mati hefur umboðsmaður Alþingis gegnt þessu starfi með sóma. Það má í raun segja að þetta embætti hafi styrkt sig mjög allt frá því að Gaukur Jörundsson hóf fyrsta starfsár sitt sem umboðsmaður Alþingis.

Af skýrslu umboðsmanns má ráða að nauðsynlegt er að hægt sé að treysta því að yfirlýsingu stjórnvalda fylgi vilji til athafna og staðið sé við slíkar yfirlýsingar innan þess tíma sem upp er gefinn af viðkomandi stjórnvaldi hverju sinni, í það minnsta að eðlilegt upplýsingaflæði eigi sér stað milli þessara aðila. Það er að mínu mati nauðsynlegt, herra forseti, að virk og góð samvinna verði á milli umboðsmanns og stjórnvalda þar sem lögbundið hlutverk umboðsmanns er að hafa eftirlit með stjórnsýslunni og tryggja hagsmuni borgaranna.