Gjaldskrá tannlæknaþjónustu

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 15:04:06 (1377)

2002-11-13 15:04:06# 128. lþ. 29.8 fundur 124. mál: #A gjaldskrá tannlæknaþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[15:04]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég var fyrir stuttu á fundi Samtaka eldri borgara í Garðabæ, Hafnarfirði, Bessastaðahreppi og Kópavogi og þetta eru einhverjir fjölmennustu fundir sem þingmenn lenda á. Þetta er meðvitaður hópur um réttindamál sín og knýr okkur þingmenn svara um hvert flokkar okkar stefna. Að þessu sinni var tannlæknamálið tekið upp meðal annarra mála og einmitt bent á hvað þetta hafi verið skelfilegur tími meðan ekki hafði samist af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins. Nefnd voru dæmi um viðgerðir sem fram að þessu hefðu kostað 4.200 kr. og hafa hækkað á tímabilinu í 6.000 hjá venjulegum tannlækni, en nú eigi að endurgreiða 22%.

Virðulegi forseti. Þetta er ekki nógu gott. Það er verið að draga úr stuðningi við eldri borgara. Og, herra forseti, ráðherra nefndi ekki einu orði afturvirkni en fjögur ár hafa liðið án þess að þessi endurgreiðsla hafi verið í gildi.