Stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 17:28:41 (1415)

2002-11-13 17:28:41# 128. lþ. 29.13 fundur 211. mál: #A stafrænar sjónvarps- og útvarpssendingar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[17:28]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr: ,,Hvenær má búast við að stafræn (digital) tækni taki við af hliðrænni (analog) tækni við sjónvarps- og útvarpssendingar og hvernig mun hin stafræna tækni verða fjármögnuð?``

Stafræn tækni mun valda þáttaskilum í þróun sjónvarps á næstu árum að flestra mati á svipaðan hátt og stafræn tækni gjörbreytti öðrum fjarskiptum upp úr 1980. Í samgrn. hefur verið unnið markvisst að innleiðingu stafrænna sjónvarpssendinga á Íslandi. Í greinargerð sem Póst- og fjarskiptastofnun vann fyrir ráðuneytið er fjallað um ýmsa þætti er varða stafrænt sjónvarp hérlendis og aðkomu stjórnvalda að ákvörðunum um stafrænt sjónvarp.

Ég legg sérstaka áherslu á að dreifing stafræns sjónvarps verði tryggð til landsmanna óháð búsetu. Hugmyndir mínar byggja á því að tryggja hverjum notanda sem einfaldastan aðgang að dreifikerfi sem getur flutt honum allar þær sjónvarpsstöðvar sem hann kýs að vera áskrifandi að. Í þeim tilgangi yrði veitt leyfi fyrir dreifikerfi fyrir allt landið með skyldum um þjónustu við landsmenn og með opnum aðgangi fyrir þá sem vilja dreifa dagskrá sinni. Póst- og fjarskiptastofnun verður falið að annast útboð í samráði við önnur stjórnvöld og markaðsaðila að sjálfsögðu. Leitast verður við ná sömu dreifingu og núverandi dreifikerfi RÚV sem nær til um 99,9% landsmanna.

Hinn 24. september sl. samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um að skipa starfshóp undir forustu ráðuneytisins til að leiða saman hagsmunaaðila og gera tillögu um innleiðingu stafræns sjónvarps á Íslandi. Ég hef þegar skipað starfshóp undir formennsku Jafets S. Ólafssonar viðskiptafræðings og vinnur nefndin að þessum verkefnum. Auk þess eiga fulltrúar fjmrn., iðn.- og viðskrn., menntmrn. og Póst- og fjarskiptastofnunar sæti í þeim hópi. Starfshópnum er m.a. falið að gera tillögur um fjármögnun hinnar stafrænu tækni og uppbyggingu kerfisins. Gert er ráð fyrir að tillögur um flutning yfir í stafræna kerfið liggi fyrir í vetur og á grundvelli þeirra tillagna um aðferðafræði yrði síðan um að ræða útboð vegna dreifikerfis og er þess að vænta að það geti farið fram ef allt gengur að óskum á næsta ári. Ákvörðun um lokun hliðræna kerfisins þarf að liggja fyrir sem fyrst og áður en útboðið er haldið.