Atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga

Miðvikudaginn 13. nóvember 2002, kl. 18:52:51 (1449)

2002-11-13 18:52:51# 128. lþ. 29.22 fundur 218. mál: #A atvinnu- og dvalarleyfi útlendinga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 128. lþ.

[18:52]

Fyrirspyrjandi (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín hljóðar svo: Hefur verið unnið að því fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins að útgáfa atvinnu- og dvalarleyfa útlendinga verði á einni hendi eins og m.a. var bent á í nefndaráliti allsherjarnefndar á síðasta þingi?

Þarna kemur einmitt ástæða fyrirspurnar minnar fram. Í nál. meiri hluta allshn. á síðasta þingi og á þinginu þar áður líka, sem sagt á 126. og 127. löggjafarþingi, benti meiri hluti allshn. á, með leyfi forseta:

,,Loks telur meiri hlutinn rétt að sett verði heildstæð löggjöf um öll málefni er varða dvalar- og atvinnuréttindi útlendinga og þau látin heyra undir eitt og sama ráðuneyti. Bendir meiri hlutinn á að hagræði af slíku er augljóst fyrir útlendinga, atvinnurekendur, sveitarfélög og stofnanir.``

Þetta var sagt á 126. þingi og í fyrra var sama orðalag notað. Ég vil sérstaklega geta þess að þrátt fyrir að meiri og minni hluti allshn. hafi skilað meirihluta- og minnihluta\-álitum þá var engu að síður samstaða um þetta atriði því að allshn. benti einmitt á þetta atriði, þ.e. að það væri til hagræðis fyrir útlendinga og ekki síður fyrir atvinnurekendur og í raun samfélagið allt að setja þetta allt á einn stað og hefur allshn. sem sagt gert það á þessum tveimur löggjafarþingum.

Þess vegna er ég að spyrja hvort unnið hafi verið að því af hálfu dómsmrn. að setja útgáfu atvinnu- og dvalarleyfa á eina hendi og ég kem til með að spyrja hæstv. félmrh. líka þessarar sömu spurningar því að að mínu mati gengur ekki að þetta heyri undir tvö ráðuneyti eða réttara sagt að það að þetta heyri undir tvö ráðuneyti verði til þess að ekki sé hægt að einhenda sér í þá hagræðingu sem það hefur í för með sér að hafa þetta á einni hendi.

Persónuleg skoðun mín á því hvar þetta eigi að vera er einfaldlega sú að þetta eigi að fara undir Útlendingastofnun, þ.e. Útlendingaeftirlitið í dag en Útlendingasofnun um áramót, þar sem þeir hafa m.a. eftirlit með landamærum. Þeir hafa mikil tengsl út af Schengen. Síðan kom það fram á þingi lögfræðingafélagsins í Svartsengi ekki alls fyrir löngu að útgáfa dvalarleyfa er að aukast meðan atvinnuleyfum fjölgar ekki eins hratt, ef þeim fjölgar yfir höfuð eitthvað. Það er greinilega meiri þungi á útgáfu leyfanna hjá Útlendingaeftirlitinu en hjá Vinnumálastofnun og ég tel einboðið að þetta ætti að fara undir Útlendingastofnun. Ég tel afskaplega mikilvægt, og ég undirstrika það, að samvinna milli þessara tveggja stofnana, Vinnumálastofnunar og Útlendingaeftirlitsins, hefur verið með eindæmum góð. En þetta hvílir náttúrlega allt saman á þeim einstaklingum sem þar eru til staðar og eru að vinna sín verk.