Fyrirtækjaskrá

Fimmtudaginn 14. nóvember 2002, kl. 12:05:27 (1491)

2002-11-14 12:05:27# 128. lþ. 30.2 fundur 351. mál: #A fyrirtækjaskrá# (heildarlög) frv., 350. mál: #A hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir# (færsla skráningar, breyting ýmissa laga) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 128. lþ.

[12:05]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að mjög mikilvægt sé að skoða það vel hvar þjóðskráin á heima. Fyrstu viðbrögð mín eru þau að best væri að hún yrði fjarlægð frá skattstjóranum. Það er mjög mikilvægt að skoða þetta. Ég held að það væri við hæfi að reyna að ræða svona hluti nokkuð þverpólitískt og það væri ekki slæmt ef sú nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar tæki einhverja umræðu um það. Ég held að það gæti líka verið til gagns fyrir hæstv. forsrh.

Ég tek undir það fyrir mína parta að ég gæti alveg hugsað mér að við værum hreyfanlegri í verkefnum stjórnsýslunnar. Það gæti vel komið til greina þegar verið er að skipa ráðherrum til verka að það geti átt heima að raða verkefnum öðruvísi upp.

Eins og mál hafa þróast með stofnanir ríkisins þá er t.d. búið að setja núna mjög margar stofnanir ríkisins í eina byggingu. Það er því heldur ekki svo að undirstofnanir þar sem þessi verkefni ráðuneytanna eiga heima séu endilega staðsett í nágrenni eins eða annars ráðuneytis. Þvert á móti eru margar ólíkar stofnanir núna til húsa á sama stað og aðrar sem eru stórar og mikilvægar, t.d. Tryggingastofnun, algjörlega sér. Það væri því í raun hægt að flytja hana til þess vegna.

Hins vegar er ég miklu uppteknari af því, og mun ræða það nánar við forsrh., að verkefni hafa fallið milli stafs og hurðar þegar þau verða eftir, eins og t.d. nokkur félagsleg verkefni sem urðu eftir hjá heilbrrn. á sínum tíma og síðan var heilbrrn. að losa sig við þessi verkefni án tilflutnings með miklum harmkvælum og eftirmálum. Þau verkefni eigum við t.d. að skoða sérstaklega. Og svo er þetta sem hæstv. ráðherra hefur nefnt og mér finnst alveg koma til greina, þ.e. að vera sveigjanlegri.