Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 19. nóvember 2002, kl. 16:42:55 (1614)

2002-11-19 16:42:55# 128. lþ. 32.11 fundur 359. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (gjaldaheimildir) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 128. lþ.

[16:42]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég má til með að taka þátt í þessari umræðu eftir að hafa hlustað á þær yfirlýsingar sem hæstv. viðskrh. hefur gefið hér og einnig vegna þess hvernig hæstv. ráðherra telur að atvinnulíf í þessu landi sé merkt sérstökum stjórnmálaflokkum.

Í máli hennar hér áðan kom fram að hún telur að atvinnulífið tengist fyrst og fremst Framsfl. og Sjálfstfl. og nánast engum öðrum. Hún nefndi í því sambandi að hún vissi ekki um neitt fyrirtæki sem tengdist m.a. Vinstri grænum.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvaða skilning hún leggi í þessar tengingar. Eru yfirmenn fyrirtækjanna ef til vill flokksbundnir sjálfstæðismenn eða framsóknarmenn en ekki í öðrum flokkum? Eða er þessi tenging þannig að þau fyrirtæki sem hæstv. ráðherra hefur í huga greiði sérstakar uppæðir til Framsfl. og Sjálfstfl.? Á hæstv. ráðherra við það? Er það þá líka þannig að hæstv. ráðherra telji sig vita það úr gögnum fyrirtækja og upplýsingum að fyrirtæki styðji almennt ekki aðra stjórnmálaflokka fjárhagslega eða með öðrum hætti? Og hvaðan hefur hæstv. ráðherra þessar upplýsingar?

Hér er verið að tala um eftirlit með fjármálafyrirtækjum. Úr því að við ræðum þetta mál og hæstv. ráðherra hefur gefið yfirlýsingar eins og þær sem hún hefur gefið hér þá tel ég afar brýnt að þingheimi og þjóðinni sé gefin góð skýring á því hvað felst í þessum orðum hæstv. ráðherra.

[16:45]

Síðan vil ég, herra forseti, gera athugasemd við það þegar hæstv. ráðherra notar orðin ,,fólk í atvinnulífinu``, að það tengist Sjálfstfl. og Framsfl. Það vill svo til að fólk í atvinnulífinu kemur úr öllum stjórnmálaflokkum, því að atvinnulífið er ekki bara toppar fyrirtækjanna, þeir sem komist hafa á þá skrá sem ráðherrann virðist hafa séð og virðist leggja málflutning sinn út af. Fólk í atvinnulífinu eru allir þeir sem taka þátt í atvinnulífinu, hvort sem þeir starfa við stjórnun fyrirtækjanna eða starfa hjá fyrirtækjunum um lengri eða skemmri tíma. Allt þetta fólk er þátttakendur í atvinnulífinu. Ég vil gera mikla athugasemd við það hvernig hæstv. ráðherra notar þessi orð.

Vel kann að vera, herra forseti, að topparnir í ýmsum stórfyrirtækjum séu vissulega með flokksskírteini í ríkisstjórnarflokkunum, og jafnvel meira en líklegt að ýmsir toppar og stjórnendur stórfyrirtækjanna séu nokkuð tryggir stuðningsmenn þessara flokka, Sjálfstfl. og Framsfl., sem hæstv. ráðherra gerði hér að umræðuefni, ég skal ekki bera á móti því, enda höfum við séð hvernig ráðningarnar hafa farið fram. Nýverið var einn af bankastjórum Seðlabankans ráðinn sérstaklega til fyrirtækis sem var selt út úr Landsbankanum, Vátryggingafélags Íslands. Ég er nærri viss um að hæstv. viðskrh. getur fullyrt það að sá maður er stuðningsmaður Framsfl. og tengist honum.

Ég held að einnig sé hægt að segja almennt, herra forseti, og draga megi þá ályktun m.a. af því sem verið hefur til umfjöllunar í blöðum og fréttatímum fjölmiðla á undanförnum vikum og missirum, að það sé frekar illa séð af ráðamönnum ríkisstjórnarinnar ef menn í viðskiptalífinu komast áfram sem ekki eru tengdir Framsfl. og Sjálfstfl. Þeirra viðhorfa hefur gætt, herra forseti. En þegar svo er tekið til orða eins og hæstv. ráðherra gerði hér áðan, þá verður manni á að spyrja úr þessum ræðustóli: Hverjum telur ráðherrann sig vera að þjóna? Er verið að vinna með sölu fyrirtækja og uppskiptum á eignum ríkisins að heill og hamingju þjóðarinnar eða er verið að skipta upp á flokksvélina? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu minni.

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, mér finnst sú ræða sem hæstv. viðskrh. flutti áðan lýsa mjög framsóknareðli hennar og þeirri hugsun hvernig Framsfl. telur að nú þurfi að ganga undir ákveðnum fyrirtækjum svo að tryggja megi þau sterku sambönd sem hæstv. ráðherra lýsti áðan að tilheyrðu Framsfl., toppunum í atvinnulífinu.

Hæstv. ráðherra kom inn á fyrirtæki í sérstökum flokki, smokkfisknum annars vegar og kolkrabbanum hins vegar. Vill hæstv. ráðherra vera svo vinsamleg að skilgreina það fyrir mér hvaða fyrirtæki teljast til hvors hóps og hvernig þau tengjast hverjum flokki, úr því að þetta kom til umræðu með þessum hætti?

Ég er mjög ósáttur við að hæstv. viðskrh. komi hér upp í þennan ræðustól og haldi því fram að fólk í atvinnulífinu sé bundið tveimur flokkum, núverandi ríkisstjórnarflokkum, og þeir séu ekki finnanlegir sem starfi í atvinnulífinu almennt sem tengjast öðrum flokkum. Ég hef gert grein fyrir því í máli mínu að það mætti vafalaust finna þess stað að ríkisstjórnarflokkarnir hafi haft áhrif á það hverjir væru ráðnir í toppstöður í ákveðnum fyrirtækjum, einkum hinum stærri, fjármálafyrirtækjum, tryggingafélögum, olíufélögum, svo eitthvað sé nefnt, eða ég get ekki skilið mál hæstv. ráðherra öðruvísi. Þess vegna hef ég farið fram á það að skýrt verði svarað og skýrt verði talað þegar ég spyr um hvað hæstv. ráðherra eigi yfirleitt við. Við hljótum að geta ætlast til þess, óbreyttir þingmenn, að hæstv. ráðherra skýri betur út það mál sem hún viðhafði hér.