Breyting á XV. viðauka við EES-samninginn

Þriðjudaginn 03. desember 2002, kl. 14:08:10 (1988)

2002-12-03 14:08:10# 128. lþ. 44.6 fundur 394. mál: #A breyting á XV. viðauka við EES-samninginn# (aðstoð til menntunar, ríkisaðstoð til fyrirtækja) þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 128. lþ.

[14:08]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. fór yfir í stuttri framsöguræðu er hér hreyft við ýmsum atriðum sem vekja a.m.k. mig til umhugsunar. Hér er um það að ræða að tilskilin ríkisaðstoð falli að EES-samningnum og þeim alþjóðaskuldbindingum sem við höfum undirgengist í samstarfi við ESB og lýtur að ríkisaðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja, lágmarksaðstoð og síðan aðstoð til menntunar.

Nú hefur gjarnan verið í almennri umræðu, stundum dálítið óskilgreindri hjá ýmsum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, vilji til þess að menn skoði miklum mun nánar en verið hefur einmitt beina og óbeina aðstoð til lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þá hefur hugmyndin að baki verið sú að reyna að skjóta stoðum undir nýskipan ýmiss konar sprotafyrirtækja af ýmsum toga o.s.frv. Hér í viðauka með þessari þáltill. er einmitt að finna skilgreiningu á litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem stundum hefur vafist fyrir mönnum í orðræðu um þessi mál. Þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki eru, a.m.k. á íslenskan mælikvarða, býsna stór fyrirtæki í mörgum tilfellum, mega vera allt að 250 starfsmenn og ársveltan má vera allt að 40 millj. evra. Ég vænti þess þó að hér sé ekki í fljótu bragði neitt að finna á skjön við þær leikreglur sem við höfum búið við og teljum bestar og gerstar í atvinnulífi okkar. En mig langaði til að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sæi þarna nýjan möguleika í íslensku atvinnulífi og hvort þessi tilskipun ein og sér breytti í raun í nokkru ríkjandi ástandi í íslensku atvinnulífi. Þá er ég auðvitað að vísa til byggðastjórnmála okkar, Byggðastofnunar --- ég hygg að í fljótu bragði geti það ekki haft nein áhrif. Sér ráðherrann þarna einhver ný sóknarfæri, er hugsanlega uppi á borðum núv. ríkisstjórnar að skoða þessi mál undir þessum nýja hatti eða eru þarna á ferðinni opnanir sem gera okkur kleift að skjóta enn öflugri og sterkari stoðum undir okkar meðalstóru og litlu fyrirtæki sem ég hygg að sé brýn þörf á, ekki síst á tímum vaxandi atvinnuleysis? Enn fremur er þarna vikið að starfsmenntun í atvinnulífi sem einnig hefur verið mjög uppi á borðum stjórnmálamanna og okkar, þingmanna. Ég vildi almennt biðja hæstv. ráðherra að fara um það nokkrum orðum hvort hann sæi einhverjar breytingar yfirvofandi vegna þessarar tilskipunar, hvort í henni væru hugsanlega fólgin ný sóknarfæri á þeim vettvangi sem tilskipunin nær til.