Öldrunarstofnanir

Miðvikudaginn 04. desember 2002, kl. 14:30:55 (2056)

2002-12-04 14:30:55# 128. lþ. 46.4 fundur 296. mál: #A öldrunarstofnanir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Mig langar í umræðunni um þessa fyrirspurn að vekja athygli á þeirri sérstöðu hvað fólk er ungt hér, það eru ekki nema 11,6% þjóðarinnar hér yfir 65 ára aldri. Það eru um 15% í Danmörku, Noregi og í Finnlandi, yfir 17% í Svíþjóð og gert er ráð fyrir að hér á landi verði þetta hlutfall 22% innan 40 ára.

Þegar við tökum tillit til þess að við verjum miklu til heilbrigðismála hér á landi með svona unga þjóð þá er mjög brýnt að hugsa þessi mál öll upp á nýtt vegna þess að við okkur blasir að við erum að takast á við miklu meiri vanda en við teljum vera. Þess vegna tel ég mjög brýnt að ræða þau mál sem koma fram í fyrirspurninni og verður kannski tækifæri til að gera það betur síðar. En það er alveg ljóst að við stefnum í allt öðruvísi þjóðfélag en er núna, breytt þjóðfélag, þar sem þarf líka m.a. að skoða vinnuþátttöku eldri kvenna, sem er alveg einstakt hér á landi í alþjóðlegum samanburði. En það stefnir í það að þjóðin eldist mjög hratt og til að vera í stakk búin til að taka á því hvað varðar heilbrigðisþjónustuna þarf nýjar leiðir í þeim efnum.