Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 4. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 4  —  4. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að einkavæðingarnefnd verði leyst frá störfum og frekari einkavæðing stöðvuð.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason,


Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að leysa einkavæðingarnefnd frá störfum og stöðva frekari einkavæðingu opinberra fyrirtækja og stofnana.

Greinargerð.


    Í kjölfar þess að nefndarmaður í einkavæðingarnefnd ríkisstjórnarinnar sagði sig úr nefndinni vegna þess að hann taldi vinnubrögð hennar mjög ámælisverð hefur forsætisráðherra óskað eftir því við Ríkisendurskoðun að á hennar vegum fari fram úttekt á tilteknum verkþáttum í starfi nefndarinnar. Fyrr á árinu beindi forsætisnefnd Alþingis, að beiðni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, því til Ríkisendurskoðunar að „hún geri ítarlega úttekt á störfum einkavæðingarnefndar með sérstakri hliðsjón af einkavæðingu Landsímans hf. sem um leið verði könnuð sérstaklega“.
    Enda þótt erindi þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafi á sínum tíma beinst fyrst og fremst að Landssíma Íslands hf. kom skýrt fram að jafnframt ætti að kanna einkavæðingarferlið almennt og aðkomu einkavæðingarnefndar að því eftir því sem tilefni væri til. Í beiðni þingflokksins um þetta efni frá 30. janúar 2002 segir orðrétt: „Athuguð verði vinnubrögð, verklag og stjórnskipuleg staða einkavæðingarnefndar, kostnaður við störf hennar bæði vegna eigin verkefna og aðkeyptrar vinnu, hvort útgjöld nefndarinnar hafi verið í samræmi við fjárheimildir, hvernig staðið er að ákvarðanatöku af hálfu nefndarinnar og annað sem efni standa til.“ Enginn sem fylgst hefur með einkavæðingarferlinu og störfum einkavæðingarnefndar getur velkst í vafa um að þar er margt sem þarf athugunar við. Í nefndinni hafa átt sæti einstaklingar sem eru nátengdir atvinnulífinu og þá einnig þeim fyrirtækjum sem hafa hagnast á einkavæðingunni. Hörð gagnrýni, m.a. á Alþingi, hefur komið fram vegna mjög hárra greiðslna til nefndarmanna en einkum hafa vinnubrögð nefndarinnar verið gagnrýnd, m.a. af Ríkisendurskoðun, og nú síðast af einum nefndarmanna sem segist aldrei hafa kynnst eins slæmum og ámælisverðum vinnubrögðum og tíðkist í nefndinni.
    Um einkavæðinguna sem og þá pólitísku stefnu sem hún er byggð á hafa verið mjög skiptar skoðanir í þjóðfélaginu. Á 125. löggjafarþingi var samþykkt þingsályktunartillaga frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem Ögmundur Jónasson var fyrsti flutningsmaður að, um að sérstakri nefnd skyldi falið að skoða verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila, en því miður hefur það starf tafist. Til viðbótar pólitískum ágreiningi er einnig ljóst að mikið skortir á að aðgerðir í þessum efnum hafi verið undirbúnar sem skyldi, stefna mótuð og skýrar verklagsreglur ákveðnar fyrirfram. Sú gagnrýni sem hér er til umræðu lýtur að öllu þessu en þó sérstaklega óöguðum og óvönduðum vinnubrögðum og hugsanlega einnig hagsmunaárekstrum í starfi. Þá hafa vaknað ýmsar spurningar um samskipti einkavæðingarnefndar ríkisstjórnarinnar, eftirlit og aðhald hennar gagnvart þeim stofnunum í almannnaeign sem gerðar hafa verið að hlutafélagi. Þannig bárust fréttir af ágreiningi og átökum á milli einkavæðingarnefndar annars vegar og þeirra aðila sem falin var umsjá Landssíma Íslands hf. hins vegar. Hvorki Alþingi né almenningur hefur verið upplýstur um þennan ágreining og aðkomu einkavæðingarnefndar og afskipti hennar af Landssímanum hf.
    Allt þetta þarf að upplýsa og þykir þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ekki annað forsvaranlegt en að einkavæðingarnefnd verði leyst frá störfum þegar í stað og einkavæðingarferlið stöðvað, jafnt breytingar á rekstrarformi fyrirtækja sem bein sala, þar til úttekt Ríkisendurskoðunar liggur fyrir. Gildir það um athugunina sem embættið lætur nú fara fram samkvæmt beiðni forsætisráðuneytisins og einnig þá rannsókn sem framkvæmd er að beiðni þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það á svo að vera Alþingis og ríkisstjórnar þegar þar að kemur að taka ákvarðanir um framhaldið. Í þeim efnum liggur skýr stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fyrir. Flokkurinn er andvígur einkavæðingu í velferðarþjónustunni og einnig einkavæðingu mikilvægra almannaþjónustufyrirtækja, en verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila, sem og leikreglur í samskiptum þeirra, er eðlilegt og þarft að yfirfara og ræða.