Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 31  —  31. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á barnalögum, nr. 20/1992, með síðari breytingum.

Flm.: Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
             Við skilnað foreldra að borði og sæng og við lögskilnað, svo og við slit óvígðrar sambúðar foreldra, sbr. 3. mgr. 2. gr. og 6. mgr. 29. gr., skulu þeir ákveða hvar barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu. Ef eigi er um annað samið fara foreldrar sameiginlega með forsjá barns. Ákvæði 4. mgr. 33. gr. á við um samninga samkvæmt þessari málsgrein.
     b.      3. mgr. fellur brott.

2. gr.

    Í stað orðanna „samningur um sameiginlega“ í 2. mgr. 33. gr. laganna kemur: sameiginleg.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Lokamálsliður 1. mgr. orðast svo: Um kröfu foreldris til niðurfellingar sameiginlegrar forsjár fer þó samkvæmt næstu málsgrein.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Foreldrar, er fara sameiginlega með forsjá barns, geta hvenær sem er krafist þess, bæði eða annað, að hún verði felld úr gildi.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hinn 1. júlí 1992 voru í fyrsta sinn lögtekin hér á landi ákvæði sem heimila foreldrum sem ekki eru í samvist að fara sameiginlega með forsjá barna sinna. Heimild þessi er bundin því skilyrði að foreldrar séu sammála um þessa skipan mála og er staðfesting sýslumanns skilyrði fyrir gildi slíks samkomulags. Í samningi foreldra verður einnig að ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli hafa lögheimili og þar með að jafnaði fasta búsetu. Eins og reglunar eru uppbyggðar er miðað við að það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá hafi réttarstöðu einstæðs foreldris. Í því felst réttur til að taka við meðlagsgreiðslum úr hendi hins foreldrisins, réttur til barnabóta og réttur til bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Prentað upp.

    Nokkrar umræður hafa orðið um hvort rétt sé að breyta þessu fyrirkomulagi með þeim hætti að sameiginleg forsjá verði meginregla við hjónaskilnaði og sambúðarslit. Í júní 1999 skilaði forsjárnefnd, skipuð af dómsmálaráðherra, af sér áfangaskýrslu þar sem m.a. er fjallað um reynsluna af sameiginlegri forsjá hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Kemur þar m.a. fram að bæði í Finnlandi og Svíþjóð hafi sameiginleg forsjá verið gerð að meginreglu við hjónaskilnað foreldra og er það niðurstaða nefndarinnar að rétt sé að feta í fótspor þeirra.
    Ein meginröksemd forsjárnefndar fyrir sameiginlegri forsjá sem meginreglu er sú að slíkt fyrirkomulag samrýmist best 1. mgr. 18. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem Ísland hefur fullgilt.
    1. mgr. 18. gr. samningsins hljóðar svo:
    „Aðildarríki skulu gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja að sú meginregla sé virt að foreldrar beri sameiginlega ábyrgð á að ala upp barn og koma því til þroska. Foreldrar eða lögráðamenn, ef við á, bera aðalábyrgð á uppeldi barns og því að barni sé komið til þroska. Það sem barninu er fyrir bestu skal vera þeim efst í huga.“
    Flutningsmenn þessa frumvarps taka undir þessa röksemd og telja að með því að gera sameiginlega forsjá að meginreglu eins og hér er lagt til sé íslenska ríkið að gera það sem í þess valdi stendur til að tryggja sameiginlega ábyrgð foreldra á uppeldi barna sinna. Réttur foreldris til að fara með forsjá barns síns er réttlætismál og á sama hátt er það réttlætismál fyrir barnið að njóta forsjár þess þótt foreldri geti vissulega fyrirgert þessum rétti sínum með því að bregðast skyldum sínum. Löggjafanum ber því að stuðla að því að réttur beggja foreldra sé tryggður svo sem framast er unnt. Réttur foreldris til að fara með forsjá barns síns er jafnframt tilfinningamál. Það skiptir máli fyrir foreldri tilfinningalega að hafa eitthvað að segja um framtíð barns síns. Sameiginleg forsjá tryggir rétt beggja foreldra hvað þetta varðar, að því marki sem unnt er. Þá má ætla að sameiginleg forsjá sé til þess fallin að efla ábyrgðarkennd foreldra gagnvart barni og hvetja þá til að ná samkomulagi um ráðstafanir sem varða hagsmuni þess.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að við hjónaskilnað eða sambúðarslit foreldra fari þeir áfram sameiginlega með forsjá barna sinna nema um annað sé samið. Foreldrar verða þó að ná samkomulagi um það hvar barnið skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu.
    Grundvöllur sameiginlegrar forsjár samkvæmt gildandi lögum er að foreldrar séu sammála um þá skipan mála. Það mun í raun ekki breytast verði frumvarp þetta að lögum. Foreldrar þurfa, eins og áður sagði, að ná samkomulagi um það hvar barnið skuli eiga lögheimili með þeim réttaráhrifum sem því fylgir. Náist ekki samkomulag um þetta er grundvöllur sameiginlegrar forsjár brostinn og verður þá að ákvarða hvort foreldrið skuli fara með forsjá barnsins eftir þeim leiðum sem lögin gera ráð fyrir. Þannig mun sameiginleg forsjá foreldra með barni eftir sem áður byggjast á samkomulagi. Breytingin hefur þannig ekki síst huglæga þýðingu þar sem löggjafinn sendir þau skilaboð að sameiginleg forsjá sé sú skipan mála sem þjóni hagsmunum barns og beggja foreldra best, sé hún á annað borð möguleg.
    Samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laganna fer móðir ein með forsjá barns ef foreldrar eru ekki í hjúskap eða sambúð við fæðingu þess. Ekki er lögð til að breyting á þessu fyrirkomulagi enda aðstæður þá oft aðrar en við skilnað eða sambúðarslit foreldra.
    Eins og kom fram fyrr hefur þetta mál verið til skoðunar hjá dómsmálaráðherra um nokkurra ára skeið. Forsjárnefnd sem ráðherra skipaði í maí 1997 skilaði af sér skýrslu í júní 1999 þar sem hún lagði til að sameiginleg forsjá yrði gerð að meginreglu. Þrátt fyrir þetta hefur dómsmálaráðherra af einhverjum ástæðum ekki brugðist við og því er þetta frumvarp lagt fram, enda að mati flutningsmanna afar brýnt mál sem ástæðulaust er að dragist frekar en orðið er.