Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 107. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 107  —  107. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um greiningu lestrarvanda.

Flm.: Þuríður Backman, Árni Steinar Jóhannsson, Kolbrún Halldórsdóttir.


    
    Alþingi ályktar að Háskólinn á Akureyri og Kennaraháskóli Íslands fái sérstakt framlag í fjárlögum að upphæð 30 millj. kr. til að greina lestrarvanda barna, unglinga og fullorðins fólks, veita ráðgjöf um viðbrögð og skipuleggja forvarnir.

Greinargerð.

    Kennaraháskóli Íslands rak í u.þ.b. áratug sérstaka stofnun innan sinna vébanda, Lestrarmiðstöð KHÍ. Meginhlutverk hennar var að greina lestrarörðugleika nemenda í grunnskólum og framhaldsskólum og fólks utan skólakerfisins, veita ráðgjöf, miðla þekkingu og vinna að rannsóknum á sérsviði sínu. Mikil þörf var fyrir þjónustu miðstöðvarinnar sem m.a. má sjá af því að allan tímann sem hún starfaði mynduðust langir biðlistar eftir greiningu.
    Kennaraháskólinn fékk sérstakt framlag í fjárlögum til að standa að hluta til straum af kostnaði við rekstur Lestrarmiðstöðvarinnar en að auki aflaði miðstöðin nokkurra tekna með starfi sínu. Nú hefur það framlag verið fellt niður og Kennaraháskólinn hætt rekstri miðstöðvarinnar.
    Afar mikilvægt er að greina lestrarvanda barna og fullorðinna og bregðast við honum. Þessi vandi er vaxandi og augljóst að nemendur á öllum skólastigum og fjöldi fullorðins fólks á við verulegan vanda að stríða sem dregur úr möguleikum til náms og háir því í daglegu starfi í atvinnulífi auk þess sem hömlun af þessu tagi hefur veruleg áhrif á andlega líðan og almennt gengi í lífinu.
    Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu telja mikilvægt að brugðist sé við þeim vanda sem skapast þegar Lestrarmiðstöðvar KHÍ nýtur ekki lengur við. Eðlilegt hlýtur að teljast að tengja verkefnið þeim stofnunum sem sinna rannsóknum á sviði fræðslumála, annars vegar á höfuðborgarsvæðinu, hins vegar úti á landi. Af þessum sökum er lagt til að Háskólinn á Akureyri annars vegar og Rannsóknarstofnun Kennaraháskólans hins vegar fái sérstakt framlag í fjárlögum til þess að greina lestrarvanda barna, unglinga og fullorðins fólks, veita ráðgjöf um viðbrögð og skipuleggja forvarnir.