Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 133. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 133  —  133. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. við förgun spilliefna.

Flm.: Árni Steinar Jóhannsson, Jón Bjarnason.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að láta gera úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi við förgun spilliefna sem til falla í landinu ásamt öðrum iðnaðarúrgangi.

Greinargerð.


    Fram á 20. öld bjuggu flestir Íslendingar í torfbæjum þar sem annað varanlegra byggingarefni var ekki til í landinu. Með tilkomu steinsteypunnar á seinni hluta 19. aldar skapaðist möguleiki á að gera varanlegar byggingar úr íslenskum steini og innfluttu sementi. Íslendingar tileinkuðu sér mjög fljótt steinsteyputæknina og notkun sements hófst um 1880 þegar það var notað í prestshúsið að Görðum á Akranesi, en fyrsta húsið úr reglulegri steinsteypu var byggt að Sveinatungu í Borgarfirði árið 1895. Á fyrri hluta 20. aldar jókst notkun steinsteypu og sements hröðum skrefum í byggingariðnaði. Þannig var innflutningur sements kominn í um 20.000 tonn árið 1930. Á árunum 1935–1937 var því farið að huga að möguleikum á framleiðslu sements hérlendis. Ekki varð þó af frekari aðgerðum þá. Í byrjun heimsstyrjaldarinnar síðari varð skortur á sementi hér, en notkun steinsteypu jókst þá mjög hratt með bættum efnahag og aukinni byggingastarfsemi landsmanna. Í stríðslok 1945 var ársnotkun sements orðin um 43.000 tonn. Sementsnotkunin hafði því tvöfaldast á 15 árum og ljóst að hún mundi aukast enn. Hugmyndin um íslenska sementsframleiðslu vaknaði á ný. Árið 1947 var flutt frumvarp til laga á Alþingi um sementsverksmiðju. Varð frumvarpið að lögum árið 1948. Lög þessi, sem að meginstofni eru enn þá í gildi, voru heimildarlög til þess að láta byggja sementsverksmiðju.
    Árið 1949 var skipuð nefnd þriggja verkfræðinga til þess að undirbúa byggingu verksmiðjunnar. Nefndin lauk störfum það ár og skipaði þáverandi atvinnumálaráðherra sama ár fyrstu stjórn Sementsverksmiðju ríkisins. Næstu ár fóru síðan í undirbúning og rannsóknir vegna verksmiðjunnar. Var henni valinn staður á Akranesi. Bygging verksmiðjunnar hófst árið 1955 og 14. júní 1958 lagði þáverandi forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson, hornstein að verksmiðjunni. Var hún þá nær fullbyggð og fór vígsla hennar einnig fram þennan dag um leið og ofn verksmiðjunnar var settur í gang af þáverandi iðnaðarráðherra, Gylfa Þ. Gíslasyni.
    Flestir landsmenn vita hvert meginhlutverk Sementsverksmiðjunnar á Akranesi er en fæstir hafa áttað sig á því að verksmiðjan getur gegnt lykilhlutverki hvað varðar förgun spilliefna og notkun á iðnaðarúrgangi sem til fellur í landinu. Nú þegar hefur verksmiðjan unnið brautryðjendastarf á því sviði þar sem nokkur hluti þeirrar afgangsolíu sem til fellur í landinu er unninn í verksmiðjunni. Komið hefur fram í viðtölum við forráðamann verksmiðjunnar að hún gæti hæglega tekið að sér förgun aukins hluta spilliefna sem til falla hér á landi. Má þar nefna gúmmí, svo sem hjólbarða, sem væri hægt að nota í brennsluferli verksmiðjunnar, en einnig timburafganga og olíur af ýmsu tagi í meira mæli en gert hefur verið fram að þessu.
    Tilgangur flutningsmanna er að gengið verði úr skugga um hvernig Sementsverksmiðjan getur í enn ríkari mæli unnið að förgun spilliefna. Gríðarlegt magn fellur til í landinu, afgangsolíur af ýmsu tagi, timbur- og gúmmíafgangar. Pappi sem til fellur er t.d. um 15– 20.000 tonn, timbur 14–15.000 tonn, dagblöð 10–12.000 tonn, plast 1.500–2000 tonn og hjólbarðar 1.500–2.000 tonn. Nú fargar verksmiðjan um 5.000 tonnum af fljótandi efnum sem nær eingöngu eru úrgangsolíur. Sum þessara spilliefna eru flutt til útlanda til förgunar en vegna eðlis Sementsverksmiðjunnar þar sem unnin er vara við mjög hátt brennslustig er talið að hún geti auðveldlega sinnt mun stærri hluta þessarar nauðsynlegu spilliefnaförgunar og jafnframt gæti það styrkt rekstur hennar að einhverju leyti.
    Öllum ætti að vera ljóst að sívaxandi magn spilliefna í umhverfinu er gríðarlegt vandamál sem verður að leysa til frambúðar. Verði niðurstaða úttektarinnar jákvæð telja flutningsmenn mjög mikilvægt að Sementsverksmiðja ríkisins á Akranesi fái það hlutverk að vera þátttakandi í spilliefnaförgun landsmanna og með því móti geti framtíðarrekstrargrundvöllur verksmiðjunnar styrkst verulega.