Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 211  —  208. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stórframkvæmdir í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu.

Flm.: Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásta Möller,
Katrín Fjeldsted, Lára Margrét Ragnarsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að gera úttekt á jarðgangakostum, mögulegum brúamannvirkjum og öðrum stórframkvæmdum sem ráðast þarf í á næstu árum í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu. Úttektin feli jafnframt í sér kostnaðar- og arðsemismat á framangreindum framkvæmdum.
    Ráðherra skal í samráði við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu gera tillögu að forgangsröðun þessara verkefna.
    Úttektin ásamt tillögu um forgangsröðun verkefna verði lögð fyrir Alþingi í síðasta lagi 1. nóvember 2003.

Greinargerð.


    Megintilgangur þessarar þingsályktunartillögu er að stuðla að því að ráðist verði í vinnu sem nauðsynleg er til að unnt sé að öðlast heildaryfirsýn yfir nauðsynlegar stórframkvæmdir í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu á næstu árum og áratugum.
    Mikilvægi greiðra samgangna á þessu svæði er öllum ljóst. Sú vinna sem tillagan gerir ráð fyrir er forsenda þess að unnt sé að móta skýra stefnu um framkvæmdir í vegagerð á svæðinu.
    Jarðgangaáætlun sem samþykkt var á 125. löggjafarþingi fyrir árin 2000–2004 náði eingöngu til jarðganga á landsbyggðinni. Þörfin fyrir jarðgöng eða sambærilegar stórframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu er þó síst minni en þar og eykst með hverju árinu sem líður.
    Tillagan tekur ekki aðeins til jarðganga heldur einnig til brúagerðar og annarra stórframkvæmda, svo sem mislægra gatnamóta og tvö- og þrefaldra akbrauta. Verkefnin eru fjölmörg og verður ekki reynt að telja þau upp í þessari greinargerð.
    Tillagan gerir m.a. ráð fyrir að ráðist verði í kostnaðar- og arðsemismat á einstökum framkvæmdarkostum. Ljóst er að mikill kostnaður er við einstakar framkvæmdir, t.d. svokallaða Sundabraut. Á móti kemur að gera má ráð fyrir að arðsemi þessara framkvæmda sé mikil og meiri en gerist og gengur um sambærilegar framkvæmdir annars staðar á landinu.
    Auknar framkvæmdir í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu eru ekki aðeins brýnar vegna þess gífurlega umferðarþunga sem er á svæðinu og eykst stöðugt heldur eru þær ekki síður mikilvægar til að bæta umferðaröryggi. Betri samgöngumannvirkjum fylgir aukið umferðaröryggi.
    Umhverfisþættir vega hér einnig þungt. Mengun sem rekja má beint til þess að umferðarmannvirki anna ekki umferðarþunganum er mikil. Langar raðir bifreiða í hægagangi menga meira en margan grunar. Geiðari samgöngur og stytting vegalengda er því brýnt umhverfismál.
    Gert er ráð fyrir að úttekt þessi sem og kostnaðar- og arðsemismat, ásamt tillögu um forgangsröðun verkefna, verði lögð fyrir Alþingi í síðasta lagi 1. nóvember 2003. Er gert ráð fyrir að þessi vinna nýtist við undirbúning að fyrstu endurskoðun fjögurra ára samræmdrar samgönguáætlunar.