Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 250. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 254  —  250. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukinn tollkvóta hreindýrakjöts.

Flm.: Sigríður Ingvarsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Ásta Möller,
Árni Steinar Jóhannsson, Sigríður Jóhannesdóttir, Drífa Hjartardóttir.


    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að láta kanna hvort auka megi tollkvóta hreindýrakjöts og einnig hvort ástæða sé til að breyta innbyrðis skiptingu afurða í tollkvótanum þannig að sérstakur tollkvóti verði fyrir hreindýrakjöt.

Greinargerð.


    Samkvæmt 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993, er landbúnaðarráðherra heimilt að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur sem tilgreindar eru í viðaukum IV A og B við tollalög, nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. 6. gr. A tollalaga. Í tollalögum er tollkvóti skilgreindur sem tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en getið er um í 4. gr. tollalaga. Þetta á við um vörur sem áður voru háðar innflutningsleyfum.
    Landbúnaðarráðherra hefur með stoð í 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sett reglugerð nr. 410/2002, um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á nautgripa-, svína-, alifugla- og hreindýrakjöti. Samkvæmt reglugerðinni er sameiginlegur tollkvóti á frystu hreindýrakjöti, dádýra-, dúfu-, fasana-, lynghænu- og strútakjöti samtals 12.000 kg og var sá kvóti boðinn út samkvæmt auglýsingu landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, vegna mikillar eftirspurnar. Fjórir aðilar buðu í tollkvóta hreindýrakjöts og varð niðurstaða útboðsins sú að ráðherra úthlutaði kvótanum til hæstbjóðanda, aðila í veitingarekstri, samkvæmt tillögum ráðgjafanefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara, sem fékk 3.000 kg. Á síðasta ári voru umsóknir um tollkvótann mun færri svo að hann var ekki fullnýttur, einungis 10.200 kg var úthlutað, þar af 8.000 kg í hreindýrakjöti.
    Ákvörðun landbúnaðarráðherra um lækkun tolls skal samkvæmt greinargerð með frumvarpi til tollalaga ráðast af því hvort nægilegt framboð sé af viðkomandi vörum á hæfilegu verði á innanlandsmarkaði. Tollhlutfall hverrar vöru skal hækka eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu er meira en lækka að sama marki eftir því sem framboð á innlendri framleiðslu minnkar. Þau tollgjöld sem í gildi eru um almennan innflutning á hreindýrakjöti eru það há að það takmarkar möguleika til að flytja kjötið inn og vinna það hérlendis vegna mikils kostnaðar. Þá hefur framboð hér innan lands verið frekar lítið og verðið mjög hátt, þannig að ekki hefur tekist að auka markaðshlutdeild á hinum almenna neytendamarkaði.
    Hreindýrakjöt hefur einkum verið flutt til Íslands frá Grænlandi og er hreindýrum á Grænlandi slátrað við bestu mögulegu aðstæður, í sláturhúsi sem hefur fengið ESB-viðurkenningu til útflutnings. Um er að ræða ósýkt, stimplað úrvalskjöt sem tilvalið er að flytja inn og fullvinna hér á landi, jafnvel sem lúxusvöru fyrir erlendan markað. Þannig mundi skapast atvinna og virðisaukinn af verðmætasköpuninni við vinnsluna verða eftir í landi. Til þess að það væri gerlegt þyrfti að lækka tolla eða jafnvel skipta upp í fleiri tollflokka eftir því hvort kjötið er með beini eða unnið. Í Noregi er tollum t.d. skipt þannig að tollur á hreindýrakjöti með beini er lægri, en hærri ef búið er að úrbeina kjötið. Á Íslandi er magntollur 960 kr. kg að viðbættum 30% verðtolli, hvort sem kjötið er með beini eða beinlaust.
    Flutningsmenn telja að innflutningur á hreindýrakjöti muni ekki hafa áhrif á sölu lambakjöts, enda vörurnar ólíkar. Þá hafa vinsældir villibráðar sem hátíðarmatar aukist mjög mikið og kom það berlega í ljós í útboði ráðuneytisins að áhuginn á hreindýrakjöti er mikill, en kvótanum sem úthlutað var í þetta skiptið, einungis 3.000 kg á móti 8.000 kg á síðasta ári, var úthlutað til eins aðila í veitingahúsarekstri. Mikilvægt er að auka fjölbreytni og framboð á almenna markaðnum og eru viðbótarkvótar ætlaðir til að tryggja meira svigrúm á markaðnum til innflutnings. Með því að úthluta einungis 3.000 kg tollkvóta hefur ekki tekist að tryggja nægilegt svigrúm á hinum almenna markaði fyrir hreindýrakjöt og því nauðsynlegt að hann verði aukinn nú þegar og enn fremur að tollkvótanum verði skipt innbyrðis milli afurða, þannig að hreindýrakjöt fái sérstakan tollkvóta og dádýra-, dúfu-, fasana-, lynghænu- og strútakjöt sérstakan.