Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 95. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 263  —  95. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um þjóðgarð á Snæfellsnesi.

     1.      Hver eru áform um starfsemi og rekstur þjóðgarðs á Snæfellsnesi?
    Markmið með þjóðgörðum er að vernda náttúru- og menningarminjar og að gera fólki kleift að njóta viðkomandi svæðis og þeirra minja sem þar finnast. Gert er ráð fyrir að miðstöð þjóðgarðsins verði á Hellissandi og að þar verði upplýsingamiðstöð og gestastofa. Einnig er gert ráð fyrir aðstöðu í sunnanverðum þjóðgarðinum. Yfir sumartímann verður svipuð starfsemi og í öðrum þjóðgörðum og gestum boðið upp á fræðslu- og gönguferðir. Í skýrslu starfshóps um stofnun þjóðgarðsins er bent á að hægt verði að taka á móti nemendahópum og öðrum sem koma vilja á svæðið og kynna sér náttúru þess og sögu.

     2.      Hvenær er áætlað að ljúka gerð göngustíga og að merkja helstu sögustaði?
    Ekki er hægt að segja nákvæmlega um hvenær gerð göngustíga verður lokið. Göngustíga þarf að endurnýja og lagfæra og einnig er gert ráð fyrir að nýjar leiðir bætist við í göngustígakerfið. Þjóðgarðsvörður hefur sett fram áætlun um að á næstu fimm árum verði lagðir stígar á þeim stöðum þar sem álag er nú mest. Áætlað er að á næstu þremur árum verði búið að setja upp helstu fræðsluskilti.

     3.      Hver er áætlaður árlegur rekstrarkostnaður þjóðgarðsins?
    Í ár var áætlaður rekstrarkostnaður 10.860 þús. kr. og inni í þeirri fjárhæð voru laun þjóðgarðsvarðar og landvarða, almennur rekstur sem og rekstur bifreiða. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir tæplega 15 millj. kr. kostnaði á næsta ári.

     4.      Hversu margir landverðir er áætlað að starfi í garðinum og í hve margar vikur á ári?

    Auk þjóðgarðsvarðar störfuðu í sumar fjórir landverðir í samtals 25 vikur í þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Til samanburðar voru vikurnar í Skaftafelli 92,3 (fimm landverðir í 57,4 vikur og þrír verkamenn í 34,9 vikur) og í Jökulsárgljúfrum voru vikurnar 78 (sex landverðir í 65,7 vikur og einn verkamaður í 12,3 vikur). Ljóst er að þörfin á sumarstarfsmönnum er minni í þjóðgarðinum Snæfellsjökli eins og sakir standa því að þar er ekki tjaldstæði. Stefnt er að ráðningu sérfræðinga/landvarða í alla þjóðgarðana til að geta flutt undirbúning sumarstarfsins og undirbúning fræðslu í auknum mæli yfir til þjóðgarðanna frá Reykjavík.

     5.      Hvað líður gerð verndaráætlunar og úttekt á veðurfari á þjóðgarðssvæðinu?

     Vinna við verndaráætlun er hafin en ljúka þarf rannsóknum á svæðinu, þ.e. fornleifaskráningu og sögulegri úttekt, áður en hægt verður að ljúka verndaráætlun. Í tengslum við vinnu undirbúningsnefndar um stofnun þjóðgarðsins voru fornleifar á norðanverðu svæðinu, suður í Beruvík, skráðar gróflega á árinu 1996 og árið 1997 setti sagnfræðingur fram tillögur um hvernig sögukafli fyrir verndaráætlun skyldi unninn en eftir er að vinna hann. Yfirlit um náttúrufar á utanverðu Snæfellsnesi var unnið árið 1994 en náttúrufar undir Jökli hefur ekki verið skoðað skipulega. Úttekt á veðurfari á þjóðgarðssvæðinu hefur ekki verið gerð.