Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 170. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 287  —  170. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ísólfs Gylfa Pálmasonar um fjölda lögreglumanna.

     1.      Hve margir lögreglumenn eru til þjónustu að meðaltali á hvern íbúa í kaupstöðum og sýslum landsins?
    Vísað er til nýlegrar skýrslu dómsmálaráðherra um stöðu og þróun löggæslu, sem lögð var fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi (þskj. 1365, 392. mál). Þar er á bls. 5–16 að finna ýmsar sundurliðaðar töflur um fjölda lögreglumanna og samanburð við íbúafjölda viðkomandi umdæmis og þarf ekki að endurtaka þær í þessu svari.

     2.      Hvað liggur til grundvallar útreikningum dómsmálaráðuneytis um fjárveitingar til einstakra sýslumannsembætta með tilliti til fjölda lögreglumanna?
    Ráðuneyti dóms- og kirkjumála tekur við fjárlagatillögum viðkomandi embætta og metur tillögur þeirra um fjölda lögreglumanna á grundvelli þess rökstuðnings sem tillögunum fylgir varðandi álag á löggæsluna. Ekki er þó ávallt hægt að verða við öllum fjölgunarbeiðnum en þær eru teknar til athugunar og ræddar við viðkomandi embætti m.a. í ljósi þess fjárhagsramma sem settur hefur verið í gerð fjárlagafrumvarps. Ekki er um neinar sjálfvirkar viðmiðunarreglur að ræða í þessu sambandi.

     3.      Á hvern hátt hefur starfsemi ríkislögreglustjóra haft áhrif á starfsemi sýslumanns- og lögregluembætta landsins?

    Stofnun embættis ríkislögreglustjóra hefur styrkt samræmingu löggæslustarfa um land allt og embættið hefur tekið við verkefnum sem eru sameiginleg fyrir önnur lögregluembætti. Þar má nefna rekstur bílabanka fyrir löggæsluna í landinu. Sér embættið um rekstur og endurnýjun lögreglubifreiða, en viðkomandi lögregluembætti greiða fyrir bifreiðirnar í hlutfalli við notkun þeirra. Embætti ríkislögreglustjóra hefur einnig tekið við rekstri fjarskiptamiðstöðvar fyrir lögregluna á suðvesturhorni landsins. Þar er tekið við öllum hjálparbeiðnum og jafnframt fylgst með staðsetningu lögreglubifreiða. Stefnt er að því að útvíkka starfssvæði fjarskiptamiðstöðvarinnar eftir því sem uppbyggingu TETRA-fjarskiptakerfisins miðar áfram. Fjarskiptamiðstöðin sparar viðkomandi lögregluliðum símsvörun og sér um fyrstu viðbrögð. Embætti ríkislögreglustjóra veitir einnig einstökum lögregluliðum aðstoð við umferðareftirlit og rannsókn alvarlegra afbrota, svo sem meiri háttar ofbeldis- og fíkniefnaglæpa. Þá hefur umferðareftirlit verið eflt í samvinnu embættisins, einstakra lögregluliða og Vegagerðarinnar.