Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 134. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 310  —  134. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Þórunnar Sveinbjarnardóttur um framlög ríkisins til neytendamála.

     1.      Hve miklum fjármunum hefur verið varið árlega til neytendaverndar, neytendafræðslu og annarra aðgerða til þess að tryggja réttindi neytenda hér á landi síðustu fimm ár, sundurliðað eftir verkefnum?
Neytendamál teygja arma sína inn í fjölmarga málaflokka sem falla undir hin ýmsu ráðuneyti. Til dæmis húsnæðismál sem heyra undir félagsmálaráðuneyti, matvæli sem skipta neytendur miklu máli tilheyra umhverfisráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti og neytendafræðsla í skólum heyrir undir menntamálaráðuneyti svo dæmi séu nefnd.
    Hins vegar gegnir viðskiptaráðuneytið lykilhlutverki á sviði neytendamála enda heyra þau stjórnsýslulega undir ráðuneytið. Meðal annars þess vegna starfa tvær mikilvægar stofnanir á sviði neytendaverndar undir viðskiptaráðuneytinu, þ.e. Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa. Erfitt er að meta neytendaþáttinn sérstaklega í starfsemi þessara stofnana. En rétt er að taka fram að innan Löggildingarstofu er markaðsgæsludeild og hjá Samkeppnisstofnun er sérstök neytendamáladeild.
    Auk þess sinna fjölmargir aðrir starfmenn þessara stofnana verkefnum er lúta að neytendavernd. Sem dæmi um þetta má nefna að hjá Samkeppnisstofnun fara fram umfangsmiklar athuganir á ólögmætu samráði milli fyrirtækja en slíkt samráð bitnar fyrst og fremst á neytendum. Þá fer þar fram vinna við að efla verðskyn neytenda, m.a. með gerð verðkannana. En almennt er samkeppnisyfirvöldum ætlað að stuðla að því að neytendur fái góða vöru og þjónustu á sanngjörnu verði.
    Bæði Samkeppnisstofnun og Löggildingarstofa hafa auk annarrar starfsemi gefið út fræðsluefni ætlað neytendum. Hér eru ekki tilgreindar sérstaklega þær upphæðir sem til þess hafa fallið en hins vegar þykir rétt að taka fram þær heildarfjárveitingar sem þessar stofnanir hafa notið á fjárlögum undanfarin fimm ár.

Heildarfjárveitingar samkvæmt fjárlögum, millj. kr.

Löggildingarstofa Samkeppnisstofnun
1998 135,2 88,9
1999 144,3 97,4
2000 150,1 105,4
2001 170,5 130,6
2002 188,1 136,0


    Auk þess sem að framan er talið er rétt að geta beinna framlaga viðskiptaráðuneytis til ýmissa verkefna svo sem hér segir:
    Árið 1998 voru lagðar fram samtals 1.247.000 kr. til aðlögunar norræns kennsluefnis um neytendafræðslu í skólum sem einnig var gefið út á netinu.
    Alþingi veitti 3.000.000 kr til gerðar skýrslu um dagvöruverslun á vegum Samkeppnisstofnunar árið 1999.
    Árið 1999 var gefin út skýrslan Stefnumörkun í málefnum neytenda og nam kostnaður við hana og nefndarstörf vegna hennar um það bil 300.000 kr.
    Árið 2000 var gefinn út bæklingur um skilarétt neytenda. Kostnaður við nefndarstarf og gerð bæklings og merkis nam alls u.þ.b. 380.000 kr.

     2.      Hversu há fjárhæð var veitt til starfsemi Neytendasamtakanna á sama árabili og til hvaða verkefna rann hún?
    Hinn 16. nóvember 1998 var gengið frá þjónustusamningi við Neytendasamtökin sem fólu í sér fjárframlög að upphæð 6.800.000 kr. árið 1999. Í þjónustusamningnum felst að þetta framlag rennur til að kosta að hluta rekstur kvörtunarþjónustu Neytendasamtakanna.
    Árið 2000 nam þessi upphæð 6.800.000 kr.
    Árið 2001 var þjónustusamningurinn endurskoðaður og runnu 7.800.000 kr. til kvörtunarþjónustu og 500.000 kr. til að kanna staðlaða samningsskilmála.
    Samkvæmt þjónustusamningi fyrir árið 2002 munu Neytendasamtökin fá framlag vegna þjónustusamnings að upphæð 8.300.000 kr.
    Auk þess sem að framan er getið hefur viðskiptaráðuneytið á árinu 2002 veitt Neytendasamtökunum styrk að upphæð 750.000 kr. vegna heimasíðu.
    Undanfarin ár hefur ráðuneytið stutt Neytendasamtökin til þátttöku í aðalfundi evrópskra neytendasamtaka og hefur sú upphæð verið á bilinu 150.000–200.000 kr. hvert ár.