Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 83. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 322  —  83. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um eyðingu sjúkrahússorps.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hve mikið fellur til af sjúkrahússorpi hér á landi á ári?
     2.      Hvernig er staðið að eyðingu slíks sorps?
     3.      Hversu margar sorpeyðingarstöðvar í landinu uppfylla skilyrði um eyðingu sjúkrahússorps og hverjar eru þær?
     4.      Er tryggt að eyðing sjúkrahússorps fari eingöngu fram í sorpeyðingarstöðvum sem hafa til þess öll tilskilin leyfi?


    Gengið er út frá því að með hugtakinu „sjúkrahússorp“ sé átt við sérstakan úrgang frá heilbrigðisstofnunum sem hefur í för með sér meiri sýkingarhættu og hættu á meiðslum en annar úrgangur. Til þessa flokks heyrir sóttmengaður úrgangur, líkamsleifar, hvassir hlutir, lyfjaúrgangur og frumubreytandi efni, sem geta haft stökkbreytingar í för með sér.
    Í eftirfarandi svari er einungis fjallað um úrgang sem fellur undir framangreint og er frá heilbrigðisþjónustu, en þar er talinn með úrgangur sem fellur til við heimaþjónustu (t.d. úrgangur vegna blóðskilunar og sprautunálar) og heilsuverndar dýra, en ætla má að hann sé 10–25% alls þess úrgangs sem fellur til hjá heilbrigðisstofnunum.

Magn sjúkrahússorps.
    Magn úrgangs frá heilbrigðisstofnunum var kannað árið 2000. Ætla má að úrgangur sem fellur undir framangreint sé nálægt 350 tonnum á ári. Sorpbrennslan á Suðurnesjum tók á móti 220 tonnum árið 2000 og 280 tonnum árið 2001.

Eyðing.
    Heilbrigðisstofnanir þar sem mest fellur til af umræddum úrgangi flokka hann yfirleitt og aðgreina frá öðrum úrgangi þó að enn vanti upp á að hann sé flokkaður sem skyldi. Rétt flokkun úrgangs er forsenda viðeigandi förgunar. Hollustuvernd ríkisins gaf út leiðbeiningar 1995 um meðferð á sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum. Núna fer úrgangur frá heilbrigðisstofnunum að miklu leyti á förgunarstaði fyrir neysluúrgang og almennan rekstrarúrgang.
    Á Suðurnesjum er gömul sorpbrennsla sem tekur á móti stærstum hluta þessa úrgangs en þar er ekki fullnægjandi förgun á sóttmenguðum úrgangi. Stefnt er að því að taka nýjan fullkominn brennsluofn í notkun á þar næsta ári. Á Suðurlandi er urðun viðtekin förgunaraðferð nema á Kirkjubæjarklaustri en þar er brennsluofn með viðunandi hreinsibúnaði. Í Vestmannaeyjum er brennsluofn með viðunandi hreinsibúnaði.
    Fullkominn brennsluofn er á Ísafirði sem fullnægir þörfum norðurhluta Vestfjarða. Þá er einnig sorpbrennslustöð á Tálknafirði.
    Á öllu Norðurlandi er úrgangur urðaður. Á Akureyri er allur sóttmengaður úrgangur frá FSA hitameðhöndlaður með gufu undir þrýstingi áður en hann fer á urðunarstað fyrir almennan úrgang.
    Urðun er viðtekin förgunaraðferð á Austurlandi.
    Þá eru nokkrar heilbrigðisstofnanir sem hafa eigin ofna fyrir þann úrgang sem fellur til hjá þeim en þeir uppfylla ekki settar kröfur nema ofn dýraspítalans í Víðidal.
    Helstu leiðir sem koma til greina við förgun úrgangs eru brennsla, efnameðferð, hitameðferð og urðun, sbr. eftirfarandi yfirlit.

Brennsla.
    Til greina kemur einungis háhitabrennsla úrgangsins. Brenna má annars vegar í stöðvum sem eru sérstaklega hannaðar fyrir brennslu úrgangs og eru búnar sérstökum hreinsibúnaði til að minnka verulega losun mengandi efna og hins vegar má brenna úrgangi í ofnum sem eru notaðir fyrst og fremst við framleiðslu efna, t.d. sements, en geta einnig brennt úrgangsefnum. Viðkomandi ofnar þurfa að hafa viðurkenndan hreinsibúnað og leyfi til að eyða spilliefnum, til þess að eyðing sérstaks úrgangs frá heilbrigðisstofnunum komi til greina. Með háhitabrennslu er unnt að eyða öllum tegundum þessa úrgangs.

Efnameðferð.
    Ýmis efni eru nothæf til þess að sótthreinsa sóttmengaðan úrgang. Gallar þeirrar meðferðar eru að not takmarkast við sóttmengaðan úrgang og hvassa hluti og að efnin sem eru notuð til sótthreinsunar eru varasöm.

Hitameðferð.
    – Vothitameðferð. Um er að ræða sótthreinsun með gufu undir þrýstingi. Þessi aðferð hentar vel til þess að gera flestan sóttmengaðan úrgang óskaðlegan. Sumir ofnar duga fyrir líkamsleifar en engir fyrir lyfja- og efnaúrgang.
    – Þurrhitameðferð. Úrgangur er kurlaður og flyst eftir snigli í hituðu hólfi, sem þannig sótthreinsar hann. Dugar ekki á lyf eða efnaúrgang.
    – Örbylgjumeðferð. Góð sótthreinsunaraðferð. Kurla þarf og væta úrganginn fyrir meðferð. Eftir meðferð má blanda honum við almennan úrgang.

Urðun.
    Tvær aðferðir urðunar koma til greina eftir að úrgangurinn hefur verið gerður óskaðlegur á annan hátt áður.
    – Einangrun. Úrgangur er settur í slitsterk hylki úr pólýethýlen eða málmi, sem síðan eru urðuð. Hentar best fyrir úrgang þar sem eru skarpir hlutir, t.d. áhöld, og lyfja- og efnaúrgang þar sem lágmarkskröfur eru gerðar til förgunar.
    – Örugg urðun. Endanleg förgun á flestum úrgangi, þar með töldum sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum, sem hefur verið gerður óskaðlegur áður.


Aðferðir við meðhöndlun á úrgangi frá heilbrigðisstofnunum .

Aðferð

Kostir

Ókostir
Sóttmengaður úrgangur Líkamshlutar Stungu-
áhöld

Lyf
Frumudrepandi efni Efnaúrgangur
BRENNSLA
Meðbrennsla í iðnaðarofni, t.d. í sementsframleiðslu.
Fullnægjandi fyrir allar tegundir úrgangs frá heilbrigðisstofnunum. Dýr í uppsetningu og rekstri, þarf sérstakt leyfi fyrir meðbrennslu spilliefna.
Úrgangsbrennsluofn.
Fullnægjandi fyrir allar tegundir úrgangs frá heilbrigðisstofnunum. Dýr í uppsetningu og rekstri.
EFNAMEÐFERÐ
Efnameðferð.
Virk meðferð fyrir þær tegundir úrgangs sem henta þessari aðferð. Efnin eru tiltölulega ódýr. Dregur úr umfangi úrgangs. Um notkun eiturefna er að ræða. Ekki nothæft fyrir líkamsleifar, lyf og efnaúrgang. Nei Nei Nei Nei
HITAMEÐFERÐ     
Vothitameðferð.

Virk og umhverfisvæn meðferð fyrir þær tegundir úrgangs sem henta þessari aðferð. Tiltölulega ódýr kostur. Ekki nothæft fyrir lyf og efnaúrgang. Ekki fyrir líkamsleifar nema í sérstökum tækjum. Í sumum gerðum tækja Nei Nei Nei
Örbylgjumeðferð.
Virk og umhverfisvæn meðferð fyrir þær tegundir úrgangs sem henta þessari aðferð. Tiltölulega dýr aðferð. Ekki nothæft fyrir lyf, efnaúrgang og fyrir líkamsleifar. Nei Nei Nei Nei
URÐUN
Einangrun.
Einföld, örugg og ódýr lausn fyrir sumar tegundir úrgangs. Ekki nothæft fyrir sóttmengaðan úrgang og líkamsleifar. Einungis nothæf aðferð eftir aðra meðhöndlun. Nei Nei Í litlum mæli Í litlum mæli
Urðun á viðurkenndum stað.
Einungis nothæf aðferð eftir aðra meðhöndlun.
Sorpeyðingarstöðvar sem uppfylla skilyrði um eyðingu sjúkrahússorps.
    
Hér á landi eru sex starfandi brennslustöðvar sem brenna við háan hita. Þær eru á Ísafirði, í Skaftafelli, á Kirkjubæjarklaustri, í Vestmannaeyjum, á Suðurnesjum og á Tálknafirði. Fyrirhugað er að reisa sorpbrennslustöð á Patreksfirði. Sementofninn á Akranesi getur einnig tekið við sóttmenguðum úrgangi en telst ekki vera brennslustöð.
    Einungis sorpbrennslustöðin á Ísafirði er með starfsleyfi til að brenna sérstakan úrgang frá heilbrigðisstofnunum. Þá er vitað að úrgangi frá heilbrigðisstofnunum er eytt á Kirkjubæjarklaustri en magnið þar er tiltölega lítið, eða um 200 kg á mánuði.
    Sérstakur úrgangur frá heilbrigðisstofnunum hefur verið brenndur í sorpbrennslustöðinni á Suðurnesjum. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefur gert athugasemdir við förgun sérstaks úrgangs frá heilbrigðisstofnunum þar sem brennslan á Suðurnesjum uppfyllir ekki kröfur til förgunar á þessum úrgangi vegna PVC-innihalds og því þarf að tryggja að í honum séu ekki slík efni. Sorpbrennslustöðin er á undanþágu þangað til að ný brennslustöð verður tekin í notkun, sem samkvæmt áætlun verður 2004. Gerður var samningur milli Efnamóttökunnar hf. og Sorpstöðvar Suðurnesja fyrr á þessu ári sem felur í sér að Sorpstöðin tekur því aðeins við sérstökum úrgangi frá heilbrigðisstofnunum að Efnamóttakan sjái áður til þess að hann sé í viðunandi formi, t.d. með því að minnka magn plasts í honum. Efnamóttakan vinnur að úrbótum varðandi förgun þessa úrgangs og hefur m.a. átt í viðræðum við sorpbrennslustöðina á Ísafirði.
    Á Akureyri eru nálar, umbúðir o.fl. sambærilegt meðhöndlað með gufu undir þrýstingi áður en það er urðað. Lyfjum og líkamshlutum hefur verið eytt á Húsavík en sorpbrennslu þar var nýlega hætt og hefur þessi úrgangur verið sendur til Suðurnesja. Ekki er vitað á þessari stundu hvernig framhaldið verður.
    Enginn urðunarstaður er með starfsleyfi til að urða sóttmengaðan úrgang (nálar, sáraumbúðir o.fl.) nema hann sé meðhöndlaður og gerður óskaðlegur og honum pakkað sérstaklega en þó er ljóst að sóttmengaður úrgangur fer í urðun sums staðar.

Eyðing sjúkrahússorps í sorpeyðingarstöðvum sem hafa tilskilin leyfi.
    Ekki er ekki öruggt að eyðing sjúkrahússorps fari eingöngu fram í stöðvum sem hafa til þess öll tilskilin leyfi, sbr. framangreint. Því skipaði umhverfisráðherra í lok árs 1999 starfshóp til að setja fram tillögur um viðeigandi förgun úrgangs frá heilbrigðisstofnunum. Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra ári síðar. Í febrúar 2002 var gefin út reglugerð nr. 184/2002, um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, þar sem tegundir úrgangs og förgunarleiðir eru tilgreindar. Á yfirstandandi löggjafarþingi verður lagt fram frumvarp til laga um meðhöndlun úrgangs. Verði frumvarp þetta að lögum verða í framhaldi af gildistöku þeirra settar nýjar úrgangsreglugerðir, m.a. verða ákvæði um sóttmengaðan úrgang gerð skýrari. Rétt er þó að taka fram að til eru leiðbeiningar um flokkun sérstaks úrgangs frá heilbrigðisstofnunum og sé farið markvisst eftir þeim er hægt að halda í lágmarki úrgangi sem þarf að eyða á flókinn og dýran hátt.