Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 310. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 335  —  310. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurgreiðslu sjónglerja og linsa fyrir börn og unglinga.

Flm.: Páll Magnússon.



    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að beita sér fyrir endurskoðun reglna um endurgreiðslu sjónglerja og linsa fyrir börn þannig að öll börn undir sjálfræðisaldri fái endurgreiddan hluta kostnaðar sjónglerja og linsa.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er nú flutt í annað sinn, en áður lagði flutningsmaður hana fram á 126. löggjafarþingi.
    Í reglum um endurgreiðslu sjónglerja og linsa er kveðið á um styrk til gleraugnakaupa í
lækningaskyni. Þannig er ekki um almennan fjárhagsstuðning að ræða heldur lið í meðferð til að koma í veg fyrir að börn hljóti starfræna sjóndepru á auga. 16–17 ára börn njóta þó ekki
endurgreiðslna þrátt fyrir hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár. Það er rökstutt með því að sjón sé aðeins í mótun til 12 ára aldurs og eins og að framan greinir er styrkurinn veittur í lækningaskyni en ekki sem fjárhagsaðstoð.
    Að hámarki er hverju barni veittur einn styrkur á tólf mánaða tímabili. Í flestum tilfellum dugir það, nema hjá yngstu börnunum þar sem vöxtur er hraðari en svo að ein gleraugu dugi þann tíma. Um 50–60% kostnaðar við kaup á sjónglerjum og linsum eru endurgreidd. Um fastar upphæðir er að ræða sem taka mið af eðli og gerð glerjanna.
    Það er réttlætismál að börnum sé ekki mismunað þannig að sum þeirra njóti stuðnings við kaup á sjónhjálpartækjum en önnur ekki. Þannig fá nærsýn börn enga styrki. Það gengur ekkert barn með sjóngler nema af illri nauðsyn, hvort sem sjónglerið er liður í læknismeðferð eða ekki. Kostnaður foreldra getur verið umtalsverður. Ætla má að sjóngler barna endist mun skemur en fullorðinna, bæði vegna meira álags í leik þeirra og ekki síður vegna uppvaxtar. Með hliðsjón af þátttöku ríkisins í tannlækningum barna og stuðningi þess við kaup á heyrnartækjum byggist sú hugmynd á sanngirni að aðstoð við kaup á sjónglerjum og linsum fyrir börn verði aukin og að öll börn njóti hennar án tillits til eðlis sjóngalla.