Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 96. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 375  —  96. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Gísla S. Einarssonar um jarðir í eigu ríkisins.

     1.      Hversu margar jarðir í eigu ríkisins eru notaðar af stofnunum þess sem sumardvalarstaðir?
     2.      Hverjar eru þessar jarðir og hvaða stofnanir nýta þær?
     3.      Er greidd leiga fyrir afnotin og, ef svo er, hver er heildarleigan og hvernig skiptist hún á einstakar jarðir?
    Landbúnaðarráðuneytið hefur eingöngu upplýsingar um ríkisjarðir sem eru á forræði ráðuneytisins og undirstofnana þess og takmarkast svör hér á eftir við það. Nokkur fjöldi ríkisjarða er á forræði eða í umsjón annarra ráðuneyta og ríkisstofnana og eiga svör við þessari fyrirspurn ekki við um þær.
    Á einni jörð í umsjá Skógræktar ríkisins er húsnæði sem leigt er starfsmönnum Skógræktar ríkisins og landbúnaðarráðuneytisins til sumar- og helgardvalar. Þetta er jörðin Litla- Skarð, Borgarbyggð, Borgarfjarðarsýslu. Jörðin er í eigu Skógræktar ríkisins og var keypt fyrir gjafafé sem skilyrt var til skógræktar í Borgarfirði. Skógrækt ríkisins hefur gróðursett töluvert á jörðinni en einnig er þar rannsóknaraðstaða á sviði alþjóðlegra vatnarannsókna. Þegar jörðin var keypt voru allar byggingar á jörðinni ónýtar og voru þær rifnar nema vélaskemma en í henni var útbúin aðstaða til sumardvalar. Það hús er leigt starfsmönnum Skógræktar ríkisins og ráðuneytisins til sumar- og helgardvalar.
    Heildarleigutekjur fyrir Litla-Skarð árið 2001 voru 112.000 kr.
    Á árinu 2002 var gjald fyrir vikudvöl í Litla-Skarði 5.500 kr. að vetri, 7.000 kr. á vori og hausti og 8.000 kr. yfir sumarið. Helgarleigugjald að vetri var 4.000 kr.
    Við ákvörðun leigugjalds hefur verið miðað við að leigutekjur standi undir rekstrarkostnaði.

     4.      Eru einhverjar þessara jarða á söluskrá?
    Engar jarðir á forræði ráðuneytisins og undirstofnana þess eru á söluskrá.

     5.      Eru einhverjar jarðir í eigu ríkisins nýttar sem sumardvalarstaðir af öðrum, þ.e. einstaklingum, fyrirtækjum eða stofnunum?
    Sumarbústaðahverfi eru á nokkrum jörðum á forræði ráðuneytisins, þ.e. á jörðunum Arnarstapa í Snæfellsbæ, Heiðarbæ í Þingvallahreppi, Árnessýslu, Kaldárhöfða og Ketilvöllum í Grímsnes- og Grafningshreppi, Árnessýslu, Ketilhúsahaga í Rangárþingi ytra (áður Rangárvallahreppi), Rangárvallasýslu og Þormóðsdal í Mosfellsbæ. Ráðuneytið og stofnanir þess hafa þar gert leigusamninga um lóðir undir sumarbústaði við einstaklinga sem greiða fyrir þær árlegt leigugjald.
    Enn fremur eru sumarbústaðir í eigu einstaklinga á einstökum ríkisjörðum annars staðar á landinu þótt ekki sé þar um að ræða sumarbústaðahverfi og hafa verið gerðir lóðarleigusamningar við eigendur þeirra sem greiða fyrir lóðirnar árlegt leigugjald.
    Þá hefur ráðuneytið og stofnanir þess gert nokkra leigusamninga um íbúðarhús og eru sum þeirra aðeins notuð til sumardvalar eða annarrar skammtímadvalar en þau eru á jörðunum Hólsseli í Öxarfjarðarhreppi, Norður-Þingeyjarsýslu, Ketilsstöðum III (Hvannbóli) í Mýrdalshreppi, Vestur-Skaftafellssýslu, Kotmúla í Rangárþingi eystra (áður Fljótshlíðarhreppi), Rangárvallasýslu og Stóru-Tungu í Bárðardal, Þingeyjarsveit, Suður-Þingeyjarsýslu.