Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 234. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 395  —  234. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um aukna heilsugæsluþjónustu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Eru áform um að fjölga stöðugildum lækna í heilsugæslu á heilsugæslustöðvum
                  a.      utan höfuðborgarsvæðisins, m.a. vegna mikils vaktaálags og hvíldarákvæða EES- samningsins,
                  b.      á höfuðborgarsvæðinu vegna mikillar eftirspurnar eftir þjónustu?
     2.      Eru áform um að fjölga stöðugildum hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum?
     3.      Eru áform um að ráða fleiri starfsstéttir á heilsugæslustöðvar, svo sem sálfræðinga og næringarráðgjafa?
     4.      Eru áætlanir um sérstakar aðgerðir til að
                  a.      auka áhuga ungra lækna á heimilislækningum,
                  b.      vekja áhuga lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á því að verja hluta starfsævinnar í dreifbýli,
                  c.      stuðla að því að fleiri leggi fyrir sig ljósmæðranám og ljósmóðurstarf?
        Ef svo er, í hverju eru þær fólgnar?


    Ráðherra hefur undanfarin ár markvisst unnið að því að fjölga stöðugildum lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsstétta á heilsugæslustöðvum víða um land. Forsendur slíkrar fjölgunar hafa að hluta til byggst á óskum viðkomandi heilsugæslustöðva, sem lagðar eru fram við gerð fjárlaga á hverjum tíma, en einnig á áformum ráðuneytisins sjálfs. Óskirnar hafa síðan farið til frekari úrvinnslu og afgreiðslu við gerð fjárlaga frá Alþingi á hverjum tíma. Við áætlanagerð ráðuneytisins hefur m.a. staðbundið vaktaálag eða mikil eftirspurn eftir þjónustu í dagvinnu ráðið óskum ráðuneytisins. Á það jafnt við um stöðu lækna sem hjúkrunarfræðinga. Einnig hefur verið sótt eftir fjárheimildum til ráðningar fleiri starfsstétta, svo sem meinatækna, sálfræðinga o.fl.
    Helstu áform ráðuneytisins á næsta ári eru að ný heilsugæslustöð taki til starfa í Salahverfi, Kópavogi. Á hún að þjóna íbúum Lindahverfis, Salahverfis og Vatnsendahverfis í Kópavogi, en gert er ráð fyrir að íbúar á þessu svæði verði alls um 12 þúsund.
    Í frumvarpi til fjárlaga árið 2003 er áformað að styrkja rekstur heilsugæslunnar í Reykjavík um 73 millj. kr., og er þessu framlagi einkum ætlað að mæta kostnaði við aukna heimahjúkrun og aukna ábyrgð heilsugæslunnar á rannsóknum. Í því sambandi má geta þess að nýlega var miðstöð heimahjúkrunar opnuð á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík og er allri heimahjúkrun stjórnað og þjónað miðlægt.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 er einnig gert ráð fyrir 7,6 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til óbreyttrar starfsemi heilsugæslustöðvarinnar í Hafnarfirði, en mikið álag á stöðina varð til þess að ráðnir voru hjúkrunarfræðingar þangað á árinu 2002. Einnig er gert ráð fyrir 13,7 millj. kr. viðbótarfjárveitingu til heilsugæslustöðvarinnar í Hafnarfirði til þess að standa undir kostnaði við að ráða lækna til afleysinga.
    Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003 er gert ráð fyrir 9 mill. kr. viðbótarfjárveitingu til heilsugæslustöðvarinnar í Hveragerði og er það gert vegna aukinnar aðsóknar að undanförnu.
    Ráðuneytið hefur eftir megni reynt að auka áhuga ungra lækna á heimilislækningum, það hefur m.a. staðið að ráðningu í sérstakar námsstöður fyrir sérnám í heimilislækningum og hefur í samstarfi við læknadeild Háskóla Íslands og fleiri aðila stutt við þær stöður. Fyrirhugað er innan fárra daga að auglýsa nýjar stöður til náms í heimilislækningum.
    Heilbrigðisráðuneytið setti í reglugerð fyrir fáum árum skilyrði um starf við heimilislækningar til að öðlast lækningaleyfi. Forsenda þessa var m.a. sú að kynna ungum verðandi læknum starf utan sjúkrahúsa. Hefur þessi breyting reynst vel og hefur ráðuneytið góðar vonir um að geta stutt enn frekar við þessar stöður víða um landið. Þá hefur ráðuneytið fullan hug á því að efla áhuga heilbrigðisstarfsmanna á því að verja hluta starfsæfinnar í dreifbýli, jafnt lækna, hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra. Hefur ráðuneytið nýlega fundað með forsvarsmönnum í heilbrigðismálum á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi, sem munu skila ráðuneytinu frekari tillögum til þess að efla þessa þætti og er fullur vilji innan ráðuneytisins að styðja við það starf.
    Auk þess hafa nú nýverið átt sér stað viðræður milli fulltrúa ráðuneytisins og forsvarsmanna hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands um mögulega fjölgun hjúkrunarfræðinema. Ímyndarátak Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem styrkt var af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, skilaði þeim árangri að umsækjendum um nám í hjúkrunarfræði fjölgaði til mikilla muna.
    Í þessum viðræðum hefur möguleg fjölgun ljósmæðranema einnig verið rædd. Vonir standa til að tillögur þessa efnis liggi fyrir innan tíðar.