Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 236. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 396  —  236. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um mismunandi rekstrarform heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu.

     1.      Hefur verið gerður rekstrarlegur og faglegur samanburður á mismunandi rekstrarformi með tilliti til þjónustustigs og fjölbreytni í þjónustu á sviði heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu hjá
                  a.      heilsugæslustöðvum,
                  b.      Heimilislæknamiðstöðinni ehf.,
                  c.      Læknalind ehf.,
                  d.      sjálfstætt starfandi heimilislæknum?

    Ríkisendurskoðun gerði nýlega stjórnsýsluúttekt á rekstri Heilsugæslunnar í Reykjavík: „Fyrsti viðkomustaður í heilbrigðiskerfinu.“ Í skýrslunni gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir rekstrarkostnaði hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og ber saman einingarkostnað vegna almennrar þjónustu heilsugæslulækna hjá Heilsugæslunni í Reykjavík og hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum.
    Þjónusta heilsugæslu grundvallast á sérþekkingu á heimilislækningum, hjúkrun og heilsuvernd og byggist á þverfaglegu samstarfi. Hlutverk heilsugæslunnar er að veita einstaklingum aðgengilega og víðtæka heilbrigðisþjónustu. Þjónustan á að vera almenn, aðgangur greiður og óháður tekjum, eignum eða félagslegri stöðu manna. Sjálfstætt starfandi heimilislæknar veita almenna læknisþjónustu og heilsuvernd eftir því sem við á. Sjúklingar sem koma til sjálfstætt starfandi heimilislækna greiða sömu komugjöld og greidd eru á heilsugæslustöðvum, sbr. reglugerð nr. 218/2002, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu með síðari breytingum.
    Heimilislæknamiðstöðin ehf. (Heilsugæslan í Lágmúla) er með sjálfstæðan rekstur og á þjónustusamningi við Heilsugæsluna í Reykjavík. Stöðin fær greiðslur skv. fjárlögum og Heilsugæslan í Reykjavík hefur eftirlit með þjónustunni. Einstaklingar sem leita til Heilsugæslunnar í Lágmúla greiða sömu gjöld þar og á öðrum heilsugæslustöðvum. Þjónustan sem veitt er hjá Heilsugæslunni í Lágmúla er sambærileg við þá þjónustu sem veitt er á öðrum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Heilbrigðisyfirvöld hafa ekki gert samning við Læknalind ehf. um þjónustu og ráðuneytið hefur ekki gert formlega úttekt á þjónustu fyrirtækisins. Ráðuneytið hefur ekki gert faglegan samanburð á þeim kostum sem boðið er upp á, enda fremur hlutverk landlæknisembættisins en ráðuneytisins að hafa eftirlit með faglegum þáttum málsins, eða eins og segir í nýlegri tilkynningu frá embættinu: „Landlækni ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu og reglugerðum þar að lútandi að hafa faglegt eftirlit með heilbrigðisstofnunum og heilbrigðisstéttum annars vegar og starfi og starfsaðstöðu þeirra hins vegar. Í því samhengi fjallar embætti landlæknis um veitingu lækningaleyfa og starfsleyfa annarra heilbrigðisstétta, svo og um veitingu rekstrarleyfa heilbrigðisstofnana, auk þess að halda uppi eftirliti með allri lækningastarfsemi í landinu.“

     2.      Ef svo er, hvernig kemur sá samanburður út með tilliti til þeirrar þjónustu sem viðkomandi aðilar veita, bæði fyrir ríkissjóð og sjúklinga?
    Samkvæmt framangreindri úttekt Ríkisendurskoðunar var kostnaður á einingu á árinu 2001 hjá Heilsugæslunni í Reykjavík 3.000–3.500 kr. og 2.900 kr. hjá sjálfstætt starfandi heimilislæknum. Ráðuneytið tekur ekki þátt í kostnaði við rekstur Læknalindar ehf. og hefur ekki upplýsingar um rekstrarkostnað fyrirtækisins.

     3.      Hvernig eru forvarnastarf og heilsuvernd metin inn í rekstrarkostnað?

    Í 19. gr. laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, er kveðið á um þá þjónustu sem skal veita á heilsugæslustöð eftir því sem við á. Forvarnastarf og heilsuvernd eru hluti af þjónustu heilsugæslustöðva. Kostnaður við þjónustuna er hluti af rekstrarkostnaði stöðvanna og ekki sérgreindur frá öðrum kostnaðarþáttum.

     4.      Hefur verið tekin ákvörðun um rekstrarform nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu og ef svo er, á hvaða forsendum byggist hún?

    Á næsta ári verður opnuð ný heilsugæslustöð í Salahverfi í Kópavogi. Heilsugæslustöðin á að þjóna íbúum Lindahverfis, Salahverfis og Vatnsendahverfis í Kópavogi. Ákveðið hefur verið að bjóða rekstur heilsugæslustöðvarinnar út, en ráðuneytið hefur þegar tekið á leigu húsnæði fyrir stöðina að Salavegi 2, Kópavogi. Heilsugæslustöðinni er ætlað að veita sambærilega þjónustu og veitt er á öðrum heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu, ef frá er talin heimahjúkrun en Heilsugæslan í Kópavogi mun annast hana. Sjúklingar sem koma á heilsugæslustöðina munu greiða sömu gjöld og á öðrum heilsugæslustöðvum, sbr. reglugerð nr. 218/2002, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu með síðari breytingum.