Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 370. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 416  —  370. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002–2003.)



1. gr.

    Við 47. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 5. mgr. og orðast svo:
    Stjórn Íbúðalánasjóðs er heimilt að semja við félag eða félagasamtök um niðurfellingu á hluta af skuldum þeirra við sjóðinn gegn greiðslu á eftirstöðvum vanskila, enda sé niðurfelling skulda liður í samræmdum aðgerðum kröfuhafa í tengslum við heildarendurskipulagningu á fjármálum viðkomandi. Telji stjórn Íbúðalánasjóðs, m.a. með hliðsjón af 1. gr., að hagsmunum sjóðsins verði betur borgið með slíkum samningi sendir stjórnin tillögu þess efnis til umsagnar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar. Skilyrði fyrir heimild Íbúðalánasjóðs til afskrifta er að þessir aðilar hafi fallist á tillöguna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að stjórn Íbúðalánasjóðs verði veitt heimild til að afskrifa hluta af skuldum félags eða félagasamtaka við Íbúðalánasjóð. Síðastliðið vor var starfshópur settur á laggirnar af hálfu ríkisstjórnarinnar til að leita lausna á alvarlegum greiðsluvanda tiltekinna námsmannasamtaka vegna reksturs þeirra á leiguíbúðum ætluðum námsmönnum. Niðurstaða starfshópsins var að rétt væri að afla lagaheimildar til handa Íbúðalánasjóði til að sjóðurinn gæti ásamt öðrum lánardrottnum brugðist við erfiðum greiðsluvanda samtakanna. Núgildandi heimild skv. 47. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, til niðurfellingar á kröfum Íbúðalánasjóðs er bundin annars vegar við kröfur á hendur einstaklingum og hins vegar sveitarfélögum.
    Því er hér lagt til að í 47. gr. laganna verði bætt við ákvæði sem heimili stjórn Íbúðalánasjóðs að afskrifa hluta af lánum Íbúðalánasjóðs til félags eða félagasamtaka að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Með lögum nr. 155/2001, sem breyttu lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, var sett inn heimild fyrir stjórn Íbúðalánasjóðs til afskrifta á hluta af lánum sveitarfélaga að fengnum tillögum eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Við frumvarpsgerð þessa var horft til núgildandi 4. mgr. 47. gr. laganna sem kveður á um heimildir Íbúðalánasjóðs til afskrifta hluta af skuldum sveitarfélaga.
    Lagt er til að félög eða félagasamtök beini ósk um afskriftir til stjórnar Íbúðalánasjóðs. Stjórn sjóðsins taki síðan afstöðu til þess hvort hún leggur til að orðið sé við umsókninni eða henni synjað. Við mat á því þarf stjórn Íbúðalánasjóðs, m.a. með hliðsjón af tilgangi laganna skv. 1. gr. þeirra, að huga að því hvort hagsmunum sjóðsins verði betur borgið með slíkum samningi. Tillaga stjórnar Íbúðalánasjóðs er síðan send til umsagnar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar. Sett er sem skilyrði að gerðar verði upp eftirstöðvar vanskila og að samningar um niðurfellingu skulda skuli gerðir í tengslum við heildarendurskipulagningu á fjármálum viðkomandi félags eða félagasamtaka. Heimildin til niðurfellingar á skuldum félags eða félagasamtaka er síðan bundin því skilyrði að félagsmálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti og Ríkisendurskoðun fallist á tillöguna.
    Afskriftaheimild þessi tæki þannig t.d. til hinna ýmsu félaga- og rekstrarforma, svo sem hlutafélags, einkahlutafélags, sjálfseignarstofnunar og húsnæðissamvinnufélags. Tenging afskrifta við uppgjör á vanskilum og greiðslum og endurskipulagningu á fjármálum skuldara getur verið greiðsluhvetjandi. Með lögfestingu á slíkri heimild er því í raun verið að tryggja hagsmuni Íbúðalánasjóðs eins og kostur er við slíkar aðstæður. Með slíkri niðurfellingu og skuldaskilum má líta svo á að hagsmunir Íbúðalánasjóðs séu betur tryggðir.
    Samkvæmt framanrituðu er ljóst að ekki er gert ráð fyrir að þessari heimild verði beitt nema í undantekningartilvikum en nauðsynlegt þykir að setja nokkuð ströng skilyrði fyrir afskriftum, enda slíkt til samræmis við aðrar afskriftaheimildir Íbúðalánasjóðs skv. 47. gr. laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998,
um húsnæðismál, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu er lagt til að stjórn Íbúðalánasjóðs verði veitt heimild til að semja við félög eða félagasamtök um niðurfellingu hluta af skuldum þess við sjóðinn í þeim tilgangi að treysta hagsmuni Íbúðalánasjóðs. Telji stjórn sjóðsins hagsmunum hans betur borgið með slíkum samningi skal hún leita umsagnar félagsmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis og Ríkisendurskoðunar og er skilyrði fyrir heimild Íbúðalánasjóðs til afskrifta að framangreindir aðilar hafi fallist á tillöguna.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi kostnaðarauka í för með sér fyrir ríkissjóð, enda er heimildin veitt eingöngu í þeim tilvikum að stjórn sjóðsins telji að með samningi um niðurfellingu hluta af skuld sé hagsmunum hans betur borgið.